Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lýsa yfir fullu trausti til Ármanns

03.06.2018 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarfulltrúarnir þrír úr röðum Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sem lýstu yfir andstöðu við að starfa með BF Viðreisn í meirihluta, sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld og lýstu yfir fullu trausti til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra og oddvita flokksins. Þeir segja að Ármann hafi óskorað umboð bæjarfulltrúa til meirihlutaviðræðna í Kópavogi.

Með samstarfi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafi forsendur breyst og samskiptin á kjörtímabilinu hafi verið endurmetin á undaförnum dögum, segir jafnframt í bréfinu. Undir það skrifa þremenningarnir, þau Margrét Friðriksdóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi funduðu í dag um hvað gera skyldi í meirihlutaviðræðum. Þeir munu halda annan fund á morgun. Oddviti BF Viðreisnar býst ekki við áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, og segir gamla og nýja tímann takast á í flokknum, eins og fram kom í fréttum í dag.

Stíf fundahöld hafa verið meðal bæjarfulltrúa og baklands Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi undanfarna daga vegna fyrri yfirlýsinga bæjarfulltrúanna þriggja um andstöðu sína við að starfa með BF Viðreisn. Ármann hefur hins vegar viljað halda samstarfinu áfram og hefur leitað leiða til þess að sætta þessi ólíku sjónarmið.