Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lyktarmengun óþekkt við aðrar kísilverksmiðjur

27.04.2017 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lyktarmengun frá kísilverksmiðjum hefur ekki verið vandamál annars staðar í heiminum, eins og raunin er með kísilverksmiðjuna í Helguvík. Þetta segir efnaverkfræðingur sem heldur utan um rannsóknir á mengun við verksmiðjuna.

Ekkert var fjallað um lyktarmengun í mati á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju United Silicon. Efnaverkfræðingur sem sér um rannsóknir á mengun við verksmiðjuna segir að lyktarmengun frá kísilverksmiðjum annars staðar í heiminum sé óþekkt vandamál.

Lyktarmengun „vanreifuð“ í umhverfismati

Lyktin eða fýlan sem hefur verið rakin til kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík virðist hafa komið mönnum í opna skjöldu, jafnt stjórnendum verksmiðjunnar sem og þeim stofnunum og sérfræðingum sem tóku verksmiðjuna út og veittu henni tilskilin leyfi.

Skipulagsstofnun óskaði eftir upplýsingum frá Umhverfisstofnun um hvers kyns mengun kæmi frá verksmiðjunni og hvort búast megi við hliðstæðum vandræðagangi þegar Thorsil og PCC hefja sinn rekstur í Helguvík og á Bakka.

Í svari Umhverfisstofnunar kemur fram að ekki hafi verið fjallað neitt um lyktarmengun í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og eftir á virðast menn telja að það hefði betur verið gert, því í bréfinu stendur að það atriði hafi verið vanreifað.

Egill Þórir Einarsson, efnaverkfræðingur hjá Orkurannsóknum Keilis, annast rannsóknir á mengun við verksmiðjuna.

„Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið vandamál annars staðar í heiminum. Eins og fram hefur komið þá er náttúrulega, við þessar aðstæður sem hafa skapast í verksmiðjunni, þar sem ofninn er að detta út reglulega, þá skapast aðstæður fyrir ófullkominn bruna og ófullkominn bruni veldur myndun á öðrum efnum en myndast við eðlilega keyrslu. Og það eru þessi illa þefjandi efni, talað um ediksýru, aldehýð og ketón og fleiri slík.“

Kvartað undan ýmsu í Þrándheimi, en ekki lykt

Egill hefur sjálfur búið í Þrándheimi í Noregi. Þar var einu sinni kísilverksmiðja inni í miðjum bæ.

„Það var ekki kvartað yfir lykt, það var kvartað yfir ýmsu öðru heldur en lykt frá verkmiðjunni, þannig að ég kannast ekki við þetta. “

Egill telur einsýnt, svo sem eins og stjórnendur Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar hafa lýst yfir, að menn taki málin til endurskoðunar þegar kemur að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi verksmiðja PCC og Thorsil.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV