Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Lyf og heilsa braut samkeppnislög

26.02.2010 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Lyfjaverslunin Lyf og heilsa hefur verið sektuð um hundrað og þrjátíu milljónir króna fyrir alvarlegt brot á samkeppnislögum. Brotin fólust í að reyna að hindra Apótek Vesturlands í að veita samkeppni í lyfjaverslun á Akranesi. Eigandi apóteksins hyggst skoða hvort einkamál verði höfðað.

Apótek Vesturlands opnaði sumarið tvö þúsund og sjö lyfjaverslun á Akranesi en Lyf og heilsa ráku áður einu lyfjaverslunina þar í bæ. Skömmu eftir opnun kvartaði apótekið til Samkeppniseftirlitsins undan samkeppnishindrandi aðgerðum Lyfja og heilsu. Eftirlitið gerði húsleit þar í september sama ár.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins nú kemur fram að Lyf og heilsa reyndu fyrst að koma í veg fyrir að Apótek Vesturlands hæfi starfsemi, meðal annars með því að bjóða eiganda þess vinnu hjá sér og beita sér fyrir því að heilbrigðisráðuneytið veitti apótekinu ekki lyfsöluleyfi. Þegar Apótek Vesturlands opnaði svo verslun sína bauð Lyf og heilsa sérstaka afslætti einungis á Akranesi og stofnaði vildarklúbb til að koma í veg fyrir að viðskiptavinirnir færðu sig um set. Er meðal annars vitnað í tölvupóst frá framkvæmdastjóra Lyfja og heilsu um að Apótek Vesturlands "þyldi þetta örugglega ekki lengi." Þannig fór þetta þó ekki heldur þurfti Lyf og heilsa að loka verslun sinni á Akranesi síðastliðið haust.

Samkeppniseftirlitið taldi brot Lyfja og heilsu alvarleg. Þau væru skipulögð atlaga að nýjum keppninaut og áttu að senda þau skilaboðað það borgaði sig ekki að reyna að keppa við fyrirtækið. Ólafur Adolfsson eigandi Apóteks Vesturlands fagnar úrskurðinum en gagnrýnir hvað vinnan við málið hefur tekið langan tíma, rúm tvö ár. Hann segir reksturin hafi verið erfiður – verð hafi verið mjög lág. Hann íhugar að höfða einkamál á hendur Lyfjum og heilsu.