Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lyf fyrir krabbameinssjúka ekki til í 4 mánuði

18.09.2018 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Samheitalyf sem nauðsynlegt er fólki með brjóstakrabbamein hefur ekki verið fáanlegt hér á landi síðan um miðjan maí. Lyfið heitir exemestan og er flutt til landsins af Actavis. Sigfús Guðmundsson, fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu, að vonast sé til þess að ný sending komi til landsins á næstu dögum. Verið sé að vinna að því að flytja það inn eins fljótt og auðið er. Vandamál komu upp við framleiðslu þess og því hefur innflutningur tafist.

Lára Guðrún Jóhönnudóttir, sem er með brjóstakrabbamein, vakti athygli á málinu á Facebook í gær. Frumlyfið heitir aromasin og er töluvert dýrara en samheitalyfið. Það var ekki fáanlegt hér á landi dagana 12. til 13. september. Að sögn Gylfa Rútssonar, framkvæmdastjóra Distica, sem flytur lyfið inn, hefur verið hægt að kaupa lyfið hér á landi síðan.

Lára Guðrún sagði jafnframt í færslunni sinni að tugþúsunda munur væri á verði á lyfjunum tveimur. Sjúkratryggingar Íslands miði greiðsluþátttöku sína við verð á ódýrara lyfinu sem hefur verið ófáanlegt síðan 15. maí. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur óskað eftir því að farið verði yfir málið á samráðsfundi með Lyfjastofnun og hvernig á því standi að ítrekað sé skortur á lyfjum sem bæði séu algeng og mikilvæg fyrir sjúklinga.