Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Lýðræðislegt þjóðfélag hefur trú á samtali“

Mynd: RÚV / RÚV

„Lýðræðislegt þjóðfélag hefur trú á samtali“

16.11.2016 - 17:47

Höfundar

Sigurður Pálsson, handhafi verðlauna Jónasar Hallgrímssonar, segir að lýðræðislegt þjóðfélag geri ráð fyrir skapandi notkun tungumálsins. Það standi gegn einvíddarnotkun tungumálsins og fagni fjölbreytileika og skáldlegri vídd þess.

Hann veitti verðlaununum móttöku í Hörpu fyrr í dag, á degi íslenskrar tungu, og flutti þar ræðu þar sem hann ræddi um mikilvægi tungumálakennslu og  hvatti til aukinnar meðvitundar um að á Íslandi búi fólk sem tali önnur tungumál en íslensku.

Einangrun það versta sem geti komið fyrir Ísland

Sigurður sagði að það geti verið mikil blessun að eiga tungumál sem fáir skilji. „Sá sem á sér tungumál sem fáir skilja er í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að neyðast til þess að læra önnur tungumál. Sú nauðung er bæði ljúf og og gefandi. Að læra önnur tungumál skapar möguleika á fjölbreyttara viðhorfi til veraldarinnar og fjölbreytileiki vinnur gegn hvers kyns einsleitni. Þetta er lykilatriði. Einsleitni er ekki bara hvimleið og óspennandi – hún er hættuleg. Hún getur leitt til einangrunar, ótta og haturs. Með því einu að læra erlend tungumál setjum við okkur í annarra spor og getum því skilið dýpri skilningi.“

Hann sagði tungumálakennslu vera mikilvæga, því hún rjúfi einangrun. „Einangrun er það versta sem getur komið fyrir Ísland. Það að læra önnur tungumál er ávísun á skilning á öðrum menningarheimum.“

Vandamál leyst með samtali og jákvæðri forvitni

Hann ræddi einnig um þær breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi undanfarin ár og undirstrikaði mikilvægi samtals milli ólíkra hópa. „Nú býr á Íslandi fólk af margs konar uppruna sem talar mörg tungumál. Sá fjöldi fer stöðugt vaxandi. Þurfum við kannski að huga betur að samtali milli þeirra og okkar?“

Sigurður sagði að einungis með samtali og jákvæðri forvitni leysum við þau vandamál sem geti komið upp milli ólíkra hópa. „Við verðum að viðurkenna að hér eru fleiri tungumál töluð en íslenska. Það þýðir alls ekki að við afsölum okkur einu eða neinu, alls ekki. Áfram verður íslenskan notuð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Áfram þarf að leggja höfuðáherslu á að innflytjendur læri íslensku, þannig að þeir geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. En við skulum ekki krefjast þess að þeir tali strax gullaldarmálið eða sitja ella þegjandi. Enginn má híma mállaus út í horni.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sigurður Pálsson hlýtur verðlaun Jónasar

Menningarefni

Opna Málið á degi íslenskrar tungu

Bókmenntir

Ægifögur sáttargjörð við lífið