Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lúsmý kemur til með að dreifa sér um allt land

09.07.2018 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Lúsmý, sem menn urðu fyrst varir við hér á landi árið 2015, mun að öllum líkindum dreifa sér um landið á næstu áratugum. Þetta segir Gísli Már Gíslason, skordýrasérfræðingur við Háskóla Íslands. Mýið herjaði á Mosfellinga í síðustu viku og voru bitin svæsin, að sögn læknis.

Fólk varð fyrst vart við lúsmý í Kjósinni, en Mosfellingar og íbúar og sumarbústaðagestir víðar á Suðvesturlandi hafa einnig fundið fyrir bitum þess. Gísli segir að þessi óvelkomni landnemi komi til með að dreifa sér víðar um landið á næstu áratugum. „Ég er sannfærður um það fyrst þessi stofn er búinn að koma sér svona vel fyrir í Kjósinni og víðar að hann dreifi sér víðar á næstu áratugum, allavega á láglendi,“ segir hann.

Smýgur undir ermar og inn í hársvörð

„Í gegnum tíðina hafa verið þekktar sjö tegundir af lúsmýi en þessar sjö tegundir hafa verið rándýr á öðrum skordýrum. En nýlega, fyrir um það bil þremur árum, var vart við nýja tegund sem bítur spendýr. Sú tegund er ný hér á landi,“ segir Gísli. „Í öllu falli nýuppgötvuð.“

Þessi nýuppgötvaða tegund sé að ýmsu leyti frábrugðin bitmýinu, sem Íslendingar hafa lengi þekkt. Til að mynda er hún mun minni og því illgreinanleg og fær um að smjúga sér á óþægilegustu staði. „Bitmý bítur ekki innandyra og bitmý fer ekki undir ermar eða skálmar til að bíta, það fer bara á bera húð þar sem ekki er skuggi. Þess vegna fer það ekki heldur inn í hársvörð ef hárið er nægilega þykkt það er að segja,“ segir Gísli. „En lúsmýið smýgur alls staðar inn undir fötin, inn í hárið og inn í hársvörðinn og bítur líka innandyra. Fólk sem er sofandi eða inni í húsum og sumarbústöðum er bitið á nóttunni.“

Búum vel miðað við nágrannaþjóðirnar

Sjálfur þekkir Gísli mýið frá námsárunum á Bretlandseyjum en þar er kvikindið vel þekkt. Kvikindið kallast „Sandfly“ á Skotlandi, segir hann, að því gefnu að íslenski nýbúinn sé af nákvæmlega þeirri tegund sem grunað er. Þótt Íslendingar harmi auðvitað landvinninga lúsmýsins búa þeir nokkuð vel miðað við nágranna sína. „Á Bretlandseyjum eru á sjötta tug moskítóflugna sem bíta, á Grænlandi eru tvær moskítótegundir sem bíta til viðbótar við bitmýið sem við erum með, í Noregi og Danmörku eru hátt í fjörutíu tegundir af moskítóflugum sem bíta,“ segir Gísli.

Bitunum getur fylgt talsverð bólga en fólki er ráðlagt að hreinsa bitin með spritti og kæla. Þá er hægt að taka ofnæmislyf, nota milt sterakrem eða leita til heilsugæslunnar ef það dugar ekki til.

Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Þessi nýuppgötvaða tegund er að ýmsu leyti frábrugðin bitmýinu, sem Íslendingar hafa lengi þekkt.