Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lundinn hættir við varp í Eyjum

27.06.2011 - 18:50
Stærstur hluti lundans í Vestmannaeyjum virðist hafa hætt við varp að þessu sinni. Egg fundust í fáum holum við talningu í Stórhöfða í dag.

Á hringferð um landið hafa vísindamenn séð að staðan á varpi sjófugla er með því versta sem sést hefur í langan tíma. Í fyrra komst lítið sem ekkert af lundapysjum á legg í Vestmannaeyjum þrátt fyrir að þá hafi þrír af hverjum fjórum lundum orpið.


Í dag var ástandið kannað í 24 lundaholum rétt ofan við Höfðavík. Í aðeins einni lá lundi á eggi. Í þremur holum voru yfirgefin egg.


Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, segir útlitið ekki gott þar sem komið er langt fram á hefðbundið varptímabil. Það kemur honum þó á óvart að eitthvað af lundanum í Vestmannaeyjum ætli að reyna við varp þetta árið.