Luke og Leia snúa aftur

Mynd: Lucasfilm / Lucasfilm

Luke og Leia snúa aftur

31.07.2018 - 10:35
Einhvernveginn er það svo að alltaf er nóg að frétta úr heimi Stjörnustríðsmyndanna. Níundi og síðasti kaflinn í Skywalker-sögunni verður frumsýndur í desember á næsta ári og nýlega var leikarahópur myndarinnar tilkynntur.

Stærstu fréttirnar eru líklega þær að Carrie Fisher, sem leikur Leiu prinsessu og lést í desember 2016, mun vera í myndinni.

Einhverjir höfðu getið sér til um að hún yrði einfaldlega tölvuteiknuð (CGI) inn í myndina en svo verður ekki. J.J. Abrams sem mun leikstýra myndinni hefur uppljóstrað því að áður óséð efni sem tekið var upp við tökur á The Force Awakens verði notað í nýju myndina.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Carrie Fisher

Ekki er nóg með það að Leia prinsessa verði á staðnum heldur hefur líka verið tilkynnt að Mark Hamill, sem leikur Luke Skywalker, sé á meðal leikara í nýju myndinni. Það er kannski ekki frásögu færandi nema af því að Luke Skywalker dó í síðustu mynd, The Last Jedi.

Það lítur því út fyrir að Luke muni snúa aftur í einhverri mynd en Hamill sjálfur virðist hafa verið að gefa vísbendingar um það á samfélagsmiðlum að hann muni snúa aftur sem „Máttar-draugur“ (e.Force-Ghost). 

Þá mun leikarinn Billie Dee Williams sem lék Lando Calrissian í The Empire Strikes Back og Return of the Jedi sem komu út árið 1980 og 1983, snúa aftur í hlutverki sínu, 38 árum síðar. Tökur á myndinni hefjast líklega brátt ef þær eru ekki þegar hafnar. Eins og áður segir er það J.J. Abrams sem leikstýrir en Chris Terrio skrifar handritið.

Geir Finnsson ræddi Star Wars og fleira í vikulegu innslagi sínu um kvikmyndir, þætti og tölvuleiki. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.