Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Lúða og svartfugl ekki á matseðlum

30.01.2012 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Lúða er smám saman að hverfa af matseðlum íslenskra veitingastaða en bann við lúðuveiði hér við land tók gildi um áramót. Þá eru veitingamenn farnir að taka svartfugl af matseðlinum.

Um áramótin tók gildi algert bann við lúðuveiði við Ísland auk þess sem ekki er lengur heimilt að hirða lúðu sem meðafla. Lúða er vinsæll matfiskur og hefur til þessa verið algeng á matseðlum veitingastaða. Það er hinsvegar að breytast og Garðar Kári Garðarsson matreiðslumaður á Fiskfélaginu segir að lúða hafi verið tekin af matseðlinum þar. Það sé leiðinlegt að geta ekki boðið jafn skemmtilegan fisk og gott hráfefni. 

Garðar segir að enn sé eitthvað til af frosinni lúðu í landinu en það sé ekki boðlegt þeim sem vilji bjóða ferskan fisk. Og innflutningur á ferskri lúðu erlendis frá svari ekki kostnaði.

„Það þýðir ekkert að hafa hana á matseðlinum, fólk verður að geta keypt það sem er í boði. Hráefnisverðið hækkar svo að kílóverðið hjá okkur fer í um 8000 krónur, það kaupir enginn lúðu á því verði.“

Og Garðar segir að sama þróun sé að verða með svartfugl, en starfshópur umhverfisráðherra hefur lagt til að fimm tegundir svartfugls verði friðaðar næstu fimm árin. Lundi hafi verið á matseðlinum og leiðinlegt sé að missa gæðavöru eins hann út.