Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

LSH taki við ungmennum í fíknivanda í sumar

28.01.2019 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Heilbrigðisráðherra hefur falið Landspítalanum að taka á móti ungmennum í neyslu - og fíknivanda sem SÁÁ hefur hingað til tekið á móti. Nærri tvöfalt fleiri eru í viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn hjá SÁÁ en samningur við Sjúkratryggingar kveður á um.

Í apríl lýsti SÁÁ því yfir að samtökin hygðust hætta að veita ólögráða einstaklingum meðferð á sjúkrahúsinu Vogi, þar sem krafa væri um að börn væru ekki í meðferð í sama rými og fullorðnir. Síðan þá hefur Vogur tekið við ungmennunum þar til heilbrigðisráðuneytið setti á stofn ný úrræði.

„Það sem ég hef ákveðið að gera og falið landspítalanum í bréfi er að fela spítalanum að sinna áfengis- og vímuefnameðferð fyrir börn og ungmenni. Það er að segja, afeitrun, bráðaþjónustu og annarri sjúkrahúsþjónustu sem sá hópur þarf á að halda,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 

Að meðferð lokinni er spítalanum einnig falið að vísa börnum og ungmennum í viðeigandi meðferð á BUGL eða Stuðlum. Spítalinn svaraði erindi heilbrigðisráðherra í síðustu viku um hvað þurfi að gera fyrir þennan hóp. 

„Spítalinn þarf að færa veggi og breyta húsnæði og svo framvegis og breyta húsnæði og bæta við starfsfólki. Þannig það er ýmislegt því um líkt sem þarf að gera. Miðað við þá tímaáætlun að geta opnað úrræði af þessu tagi í sumar. Það er forgangsmál að koma til móts við þennan hóp,“ segir Svandís jafnframt.

SÁÁ er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn með suboxone. Samkvæmt minnisblaði frá ráðuneytinu er samið um meðferð fyrir 90 sjúklinga en nú eru þeir 147.  Í minnisblaðinu segir að endurskoða þurfi greiðslufyrirkomulag þessarar þjónustu. Eðlilegast væri að greiða fyrir hvern sjúkling og meðferðartilfelli.  „Ég hef ekki áform uppi um það að bæta í sérstaklega þarna enda hef ég ekki eyrnamerkta fjármuni til þess. Við náðum miklum árangri varðandi ávísuð lyf sem geta valdið ávana og fíknar. Ávísanir drógust saman um 14% á síðasta ári,“ segir Svandís.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV