Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Losun á Íslandi jókst um 2,2% á milli ára

15.04.2019 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Losun gróðurhúsalofttegunda, sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda hér á landi, jókst um 2,2 prósent á milli áranna 2016 og 2017, að því er fram kemur í skýrslu Umhverfisstofnunar. Losun í vegasamgöngum jókst um 85 prósent frá 1990 til 2017.

Skýrslan fjallar um losun gróðurhúsalofttegunda og er hún send til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan var birt var í dag.

Losunin síðan árið 2005 hefur dregist saman um 5,4 prósent. Hún hefur verið nokkuð stöðug síðan árið 2012, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir til að minnka hana. Á vef Umhverfisstofnunar segir að aukninguna megi meðal annars rekja til fjölgunar ferðamanna og aukinnar almennrar neyslu.

Losun frá vegasamgöngum, olíunotkun á fiskiskipum, gerjun í iðrum húsdýra, losun frá kælitækjum og urðunarstöðum eru helstu uppsprettur losunar sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Í skýrslunni er einnig fjallað um losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Árið 2017 féllu 39 prósent af heildarlosun Íslands þar undir og var 2,8 prósent aukning í losun innan kerfisins á milli áranna 2016 og 2017. Sé þetta tekið með jókst losunin á milli áranna 2016 og 2017 um 2,5 prósent. Losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt falla ekki undir þessar tölur.

Losun stóriðju hefur aukist um 133% síðan 1990

Eins og áður sagði fellur losun frá ál- og málmblendiframleiðslu undir viðskiptakerfi ESB og telst því ekki á beinni ábyrgð stjórnvalda. Losun í þeim geira hefur aukist 133 prósent síðan árið 1990 og er helsta skýringin aukning í málmiðnaði og notkun á efnum í loftræstingu og kælitækjum.

Losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum (efni sem notuð eru í loftræstingu og kælitæki) og nytjajarðvegi hefur aukist á milli 2016 og 2017. Aftur á móti dró úr losun frá framleiðsluiðnaði um 9 prósent og frá urðunarstöðum um 3 prósent.

34% heildarlosunar frá vegasamgöngum

Þegar litið er til heildarlosunar, sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, koma 34 prósent hennar frá vegasamgöngum en 18 prósent frá fiskiskipum. 20 prósent koma frá landbúnaði og 8 prósent frá úrgangi, svo dæmi séu tekin.

Samgöngur eru helsta ástæða aukningar á losun síðan árið 2013. Losun í vegasamgöngum jókst um 85 prósent frá 1990 til 2017 og var aukningin 5,5 prósent á milli áranna 2016 og 2017. Aftur á móti hefur losun frá fiskiskipum dregist saman síðustu tvo áratugi og hefur samdrátturinn verið um 30 prósent síðan árið 1990.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir