Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Los Angeles í Reykjavík

Mynd: sinfonia.is / sinfonia.is

Los Angeles í Reykjavík

04.10.2017 - 16:13

Höfundar

Tónlistarhátíðin LA/Reykjavík hófst í gær með tónleikum kanadíska fiðluleikarans Leilu Josefowicz og meðleikara hennar, píanistans Johns Nocacek. Það er Sinfóníuhljómsviet Íslands sem býður upp á hátíðina en öllum tónleikum hennar verður jafnframt útvarpað á Rás 1. Efnisskráin er fjölbreytt og spennandi.

Hér fyrir ofan má heyra brot af opnunartónleikunum en þeim verður útvarpað í heild á sunnudag. Hér leika Josefowicz og Novacek æsilegan og glæsilegan kafla úr sónötu nr. 1 fyrir fiðlu og píanó eftir Sergei Prokofíev.

Framhald af hátíðinni í Los Angeles

Í vor hélt Fílharmóníuhljómsveitin í Los Angeles umfangsmikla tónlistarhátíð þar sem íslensk tónlist og íslenskir flytjendur voru í forgrunni. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar ásamt Esa-Pekka Salonen var Daníel Bjarnason, staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nú er komið að Sinfóníuhljómsveit Íslands að kvitta fyrir og því blæs hljómsveitin til  tveggja vikna hátíðar, dagana 3. - 12. október, þar sem tónlist frá Los Angeles skipar veglegan sess.

Leila Josefowicz, photographed by Chris Lee, 5/13/15. Photo by Chris Lee
 Mynd: sinfonia.is
Leila Josefowicz er meðal þekktustu fiðluleikara heims.

Heimþekktur fiðluleikari og frábær strengjakvartett

Fiðluleikarinn Leila Josefowicz, sem leikur á fimmtudag einleik í verkinu Scheherazade.2 eftir bandaríska tónskáldið John Adams, hefur hampað verkum Adams víða um heim. Hún hefur til dæmis leikið þetta nýjasta verk Adams með hljómsveitum um veröld víða á síðustu mánuðum. Josefowicz hefur tvívegis komið til Íslands og leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands en þá í Háskólabíói. Ásamt verki Adams verður Sálmasinfónía Igors Stravinsky á efnisskránni á fimmtudag en þar koma Hamrahlíðarkórarnir fram, sem Þorgerður Ingólfsdóttir hefur stýrt í aðdraganda tónleikanna.

Ennfremur leikur hinn bandaríski Calder-strengjakvartett á hátíðinni á sunnudag, en hann er framarlega í bandarísku tónlistarlífi. Dauðinn og stúlkan eftir Franz Schubert og verk eftir Daníel Bjarnason eru meðal þess sem prýðir efnisskránna. 

Lokatónleikar hátíðarinnar, 12. október, verða síðan helgaðir lang-þekktustu útflutningsvöru Los Angeles borgar, nefnilega kvikmyndunum og tónlistinni úr þeim.

Mynd með færslu
 Mynd: sinfonia.is
Calder-strengjakvartettinn fer víða á sínum tónleikum.

Rás 1 fylgist vel með

Tónleikar hátíðarinnar verða allir sendir út á Rás 1, ýmist í beinni útsendingu eða í þættinum Úr tónlistarlífinu á sunnudögum. Þeir eru sem hér segir:

- Opnunartónleikar Leilu Josefowicz og Johns Novaceck. Verk eftir Sibelius, Prokofíev, Zimmerman og Adams. (Útsending á Rás 1 kl. 16:05 sunnudaginn 8. október). 

- 5. aprl kl. 19:30 - Sinfóníuhljómsveit Íslands, Leila Josefowicz og Hamrahlíðarkórarnir undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Verk eftir Igor Stravinsky og John Adams. (Bein ústending á Rás 1. Upphitun hefst kl. 19).

- 8. apríl kl. 17. - Calder-strengjakvartettinn. Verk eftir Franz Schubert, Esa-Pekka Salonen, Daníel Bjarnason og Andrew Norman. (Útsending á Rás 1 kl. 16:05 sunnudaginn 15. október.

- 12. apríl kl. 19:30. Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Richard Kaufman. Tónlist úr vinsælum kvikmyndum: Stjörnustríði, Súperman, Gone with the Wind, Sunset Boulevard, The Monuments Men, Breakfast at Tiffany's, Ben-Húr og Brúnni yfir ána Kwai. (Bein útsending á Rás 1. Upphitun hefst kl. 19).

Allar nánari upplýsingar um efnisskrá og miðasölu eru á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Íslensk tónlist trekkir að í Los Angeles

Tónlist

Reykjavíkurhátíð í LA „engri annarri lík“

Popptónlist

Reykjavík kemur til LA

Klassísk tónlist

Íslensk tónlist í brennidepli í Los Angeles