Loreen: Ísland er leynistaðurinn minn

21.02.2016 - 02:56
Mynd: Söngvakeppnin / RÚV
Sænska söngkonan Loreen skemmti gestum í Laugardalshöll og þeim sem heima sátu með flutningi á laginu Euphoria sem skilaði henni sigri í Eurovision árið 2012. Ragnhildur Steinunn og Guðrún Dís tóku hana tali í gærkvöld.

Loreen byrjaði á því að ljóstra upp leyndarmáli þegar hún sagði frá því að hún hafi margsinnis komið til Íslands. Ísland væri nokkurs konar leynistaður fyrir hana til þess að hvíla sig á. Hún eyði þó litlum tíma í Reykjavík, heldur haldi til úti á landsbyggðinni.

Söngkonan var klædd íslenskri hönnun frá toppi til táar og sagði að það verði að kynna íslenska hönnuði til sögunnar þegar hún komi fram á Íslandi.

Þær Ragnhildur og Guðrún Dís spurðu Loreen hvað Eurovision hafi gert fyrir ferilinn hennar. Hún sagði sigurinn í Baku árið 2012 aðallega hafa hreinsað hana á sál og líkama. Hún hafi fengið að koma fram og gera það sem henni þykir gaman að gera. Það besta hafi verið að fólk hafi skilið hvað hún var að gera.

Flutningur í Eurovision snýst um að ná tengingu við áhorfendur í sal og þá sem horfa á heima, að sögn Loreenar. Blótsyrði fengu að fjúka þegar hún útskýrði að keppendur ættu ekki að hugsa um samkeppnina, heldur gera sitt besta og njóta sín.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi