Lopapeysan framleidd erlendis

02.07.2012 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Hönnuðir og seljendur íslenskra lopapeysa segja innlend framleiðslufyrirtæki ekki anna eftirspurn og því leiti þau erlendis. Handverkskonur segja rangt að kalla lopapeysur íslenskar sem séu ekki prjónaðar innanlands.

Er íslensk lopapeysa sem er prjónuð erlendis íslensk? Nei, segir þingeyskur félagsskapur handverkskvenna og segir peysurnar merktar á villandi hátt. Seljendur segja bæði hönnun og efni íslensk - innlend framleiðslufyrirtæki anni hins vegar ekki eftirspurn.

Félagsskapurinn Handverkskonur milli heiða hefur gagnrýnt að mikið af íslenskum minjagripum sé framleitt erlendis. Alvarlegast sé þó að lopapeysur sem seldar eru hér á landi og sagðar íslenskar séu í raun prjónaðar erlendis.

Ósk Helgadóttir er í forsvari fyrir þingeysku handverksskonurnar. „Peysan sem flutt er inn hún er náttúrulega bara hengd upp í búðinni en það stendur ekki á henni „Made in Iceland". Það stendur heldur ekki á henni „Made in China". Þarna eru þeir að selja lopapeysur sem eru eins og íslensk lopapeysa og selja hana sem íslenska lopapeysu," segir Ósk. 

Jóel Pálsson, annar eigandi hönnunarfyrirtækisins Farmers Market, sagði í samtali við fréttastofu að fyrirtækið fullnýti íslenska framleiðendur og leiti því með hluta framleiðslunnar erlendis. Fyrirtækið myndi beina öllum viðskiptum sínum til innlendra aðila ef það hentaði og væri í boði.

Lovísa Óladóttir, framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar, tekur í sama streng, peysur séu prjónaðar erlendis til að draga úr framleiðslukostnaði og anna eftirspurn. 

„Það er áratuga hefð fyrir því að Rammagerðin selji íslenskar lopapeysur hvort sem þær eru framleiddar á Íslandi eða erlendis. Við erum að vinna í alþjóðlegu umhverfi í dag og hvað varðar merkingar á vörunni förum við eftir öllum reglugerðum sem settar eru þar að lútandi. Varan er merkt hönnuðinum og skýrt kemur fram að um íslenska ull er að ræða," segir hún. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi