Lömbin aldrei vænni

27.09.2011 - 17:31
Met var slegið í fallþunga dilka hjá sláturhúsinu á Blönduósi síðastliðinn föstudag. Lömb á Norðurlandi virðast mun betur á sig komin en von var á eftir kalt sumar.

Miðað við tíðarfarið á Norður- og Austurlandi í vor og fram eftir sumri var frekar búist við því að lömb sem kæmu af fjalli nú í haust yrðu verr á sig komin en síðasta haust.

En annað hefur komið á daginn og þótt fallþunginn - þyngd skrokks eftir slátrun og fláningu - virðist í flestum tilfellum heldur lægri en í fyrra er munurinn sáralítill.

Eitt sláturhús sker sig þó úr hvað þetta varðar. Síðastliðinn föstudag féll met í sláturhúsi SAH afurða á Blönduósi, en þar mældist mesti meðalfallþungi dilka sem skráður hefur verið í sögu fyrirtækisins.

Gísli Garðarsson, sláturhússtjóri, segir að um verulega þyngdaraukningu sé að ræða. „Það var bara óvenjulegur dagur og hefur aldrei skeð fyrr. Þetta fór í 18,86 kíló úr 2.700 lömbum en þyngsta sem hefur verið hjá okkur er 17,35 kíló í fyrra á svipuðum tíma,“ sagði hann í samtali við fréttastofu í dag. Gísli bætti við að dæmi væru um 20,32 kílóa meðalþyngd dilka frá sumum býlum. Það stefnir því í hærri meðalþyngd í sláturhúsinu á Blönduósi þetta haustið.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi