Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lokun fíknigeðdeildar mjög alvarleg

17.06.2018 - 20:10
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að lokun fíknigeðdeildar sé mjög alvarleg og geti orðið til þess að vandi þeirra sem þangað hefðu leitað verði erfiðari og flóknari. Mikið af fíkniefnum séu í umferð. Deildinni hefur verið lokað og verður ekki opnuð aftur fyrr en í byrjun ágúst.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er minna um lokanir á geðdeildum nú en í fyrra. Þær verða þó margar lokaðar stóran hluta sumars. Dagdeildin Hvítabandið verður lokuð í rúman mánuð, dagdeild átröskunarteymis í tæpa tvo og fimm daga endurhæfingardeild frá júnílokum til 7. ágúst.  

Móttökugeðdeild fíknimeðferðar var lokað 15. júní og hún verður ekki opnuð aftur fyrr en 7. ágúst. „Maður upplifir sig svolítið eins og bilaða plötu ár eftir ár að tala um þetta en þetta er alltaf jafn alvarlegt og þetta er alltaf jafn sárt fyrir sjúklingana fyrir aðstandendur fólk sem kemur þarna á verstu stundum lífs síns.“

Þeir sem þurfa á þjónustu geðdeildanna að halda fá inni á öðrum deildum en þar er þjónustan ekki sú sama.  

Anna Gunnhildur segir að ástandið sé hræðilegt. „Og maður spyr sig auðvitað hvernig er forgangsröðun fjármuna í einu ríkasta landi heims þegar þarf að loka alltaf einni bráðadeild á geðsviði á hverju einasta sumri. Eru ekki til einhverjar fjögur fimm hundruð milljónir til þess að halda þessu alltaf opnu.“

Sárt sé að sjá að loka eigi fíknigeðdeildinni þar sem er ungt og mjög veikt fólk. Mikið af fíkniefnum séu í umferð núna og fólk geti farið í geðrof vegna neyslunnar. Margir endi á örorku. „Og það liggur auðvitað ljóst fyrir að þessi hópur er sá hópur sem er vaxandi í örorku á Íslandi. Það er mesti vöxturinn í þessum hópi þetta er unga fólkið okkar og við eigum auðvitað að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það verði örorkuþegar framtíðarinnar.“

Vandi fólksins sé mjög brýnn og geta lokanirnar mögulega orðið til þess að fólk leiti sér síður hjálpar. „Afleiðingarnar geta auðvitað orðið þær að vandinn getur orðið flóknari og erfiðara við hann að eiga í framtíðinni. Þannig að þetta er verulega slæmt mál.“

Hjá Geðhjálp finni fólk fyrir áhyggjum manna af lokunum deildanna. „Og sérstaklega hjá aðstandendum ungs fólks sem hafa áhyggjur af því að fólk komist ekki að í sumar.“