Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lokuðu á ISIS af viðskiptaástæðum

20.10.2014 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Lokað var á vef hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki á grundvelli viðskiptasjónarmiða. Þetta segir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri Isnic. Forsvarsmenn Isnic höfðu áhyggjur af orðspori .is-lénsins sem verið væri að nota sem skammstöfun fyrir islamic state - íslamskt ríki.

Starfsmenn frá Isnic, Advania, Háskóla Íslands og utanríkis- og dómsmálaráðuneytum voru kallaðir á fund umhverfis- og samgöngunefndar í morgun. Rætt var um ákvörðun Isnic og Advania að loka á lén og hýsingu síðunnar Khilafah.is. Síðunni var haldið úti aff hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. 

Helmingur starfsmanna ósáttur við lokun
Töluverðar umræður spunnust um málið á fundinum. Þar kom meðal annars fram að engir eftirmálar hafi orðið vegna ákvörðunar Isnic og Advania um að loka síðunni, það er að segja að enginn frá samtökunum hefur haft samband. Þá kom einng fram að eftir að Isnic tók ákvörðun um að loka á lénið var haldinn starfsmannafundur þar sem málið var rætt. Ekki voru allir á eitt sáttir um aðgerðina.  

„Starfsmenn Isnic eru náttúrulega fáir, þeir eru ekki nema 10. Og ég mundi segja að um það bil helmingurinn af þeim starfsmönnum eru ósáttir við ákvörðunina. Það er að segja að þeir hefðu viljað að einhver annar hefði skipað okkur að loka léninu. Og yfir höfuð að loka alls ekki léninu,“ segir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri Isnic.