Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lokuðu 650 áróðurssíðum á Facebook

22.08.2018 - 02:14
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Stjórnendur Facebook tilkynntu á þriðjudag að tvær heimullegar áróðurs- og rangfærsluherferðir á samfélagsmiðlinum hefðu verið upprættar. Alls var síðum ríflega 650 hópa, félaga, fyrirtækja og einstaklinga eytt út af vefþjónum Facebook í aðgerðinni, sem sögð er liður í baráttu fyrirtækisins gegn falsfréttum og skipulagðri dreifingu rangra og villandi upplýsinga, ekki síst í aðdraganda kosninga í Bandaríkjunum jafnt sem annars staðar.

Í tilkynningunni segir Mark Zuckerberg, forstjóri og aðaleigandi Facebook, að þessar rúmlega 650 síður hafi myndað tvö þéttriðin net sem „ætlað var að villa um fyrir fólki" um hverjir síðuhaldarar voru í raun og hvað raunverulega vakti fyrir þeim. Efni á mörgum þessara síðna var rakið til Írans og á öðrum mátti finna færslur sem tengdust hópum sem áður höfðu verið raktir til rússneskra leyniþjónustustofnana, samkvæmt tilkynningunni. „Við teljum að síðurnar hafi verið hluti af tveimur aðskildum herferðum," segir Zuckerberg.

Auk Facebook-síðna voru allnokkrar Instagram-síður notaðar í herferðunum tveimur, en Instagram er í eigu Facebook. Algengast var að síðuhaldarar gæfu sig út fyrir að vera sjálfstæðir fréttamiðlar eða frjáls og óháð félagasamtök. Rannsókn Facebook-manna leiddi hins vegar í ljós að þeim var beitt með samstilltum og skipulögðum hætti til að hafa tiltekin áhrif á kjósendur og aðra notendur Facebook. Herferðirnar beindust einkum að Facebook-notendum í Bretlandi, Mið- og Suður-Ameríku, Miðausturlöndum og í Bandaríkjunum, að sögn Nathaniels Gleicher, yfirmanns netöryggismála hjá Facebook.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV