Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lokanir á Hellisheiði „gjörsamlega óþolandi”

08.02.2018 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson
Íbúar í Hveragerði eru margir ósáttir við tíðar lokanir Vegagerðarinnar á Hellisheiði. Heiðinni hefur verið lokað tíu sinnum það sem af er ári. Bæjarstjórinn segir að málið verði tekið upp á fundi með Vegamálastjóra í næstu viku og svo tíðar lokanir séu „gjörsamlega óþolandi.” 

Lokað tíu sinnum á þessu ári

Vegagerðin hefur lokað Hellisheiði tíu sinnum á þessu ári. Heiðinni var lokað fjórum sinnum í fyrra og átta sinnum árið 2016. Í hópnum „Hvergerðingar" á Facebook hafa sprottið upp umræður um þessar tíðu lokanir að undanförnu. Sitt sýnist hverjum, en margir telja að heiðinni sé lokað óþarflega oft. Íbúi í Hveragerði segir í samtali við mbl.is að lokanir séu „komnar úr böndunum" og að mikil óánægja sé meðal íbúa. Oft sé veginum lokað þótt ekkert sé að færðinni. 

Bæjarstjóri segir lokanir óþolandi

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segist deila þeirri skoðun að lokanirnar hafi slæm áhrif. 

„Svo tíðar lokanir á þessari lífæð okkar íbúa hérna fyrir austan fjall eru gjörsamlega óþolandi. En ég ætla samt að trúa því að Vegagerðin sé ekki að loka að óþörfu, að það sé annað hvort vegna þess að það er svo vont veður eða þá að bílar séu staddir á heiðinni sem eru að teppa akreinarnar." 

Funda með Vegamálastjóra

Bæjaryfirvöld eiga fund með Vegamálastjóra í næstu viku þar sem rætt verður um samgöngumál á svæðinu. Aldís segir að þar verði meðal annars rætt um lokanir á Hellisheiði.  „Í ljósi þess hvernig þetta hefur gengið núna í vetur þá er alveg ljóst að við munum taka þessa umræðu við Vegamálastjóra og forsvarsmenn Vegagerðarinnar í næstu viku. Við viljum gjarnan heyra frá Vegagerðinni hvað þeir hafa hugsað sér að gera því það getur ekki verið kappsmál hjá þeim að halda þessum vegum og þessum lífæðum jafn oft og raun hefur orðið í vetur," segir Aldís. 

Skilur gremju íbúa

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir einfalt að skýra þessar tíðu lokanir að undanförnu. „Það er bara veðrið sem skýrir það. Við höfum fengið verri veður og þau hafa komið hvert í kjölfarið á öðru upp á síðkastið," segir G. Pétur. 

Hann segir að verklag við lokanir sé með alveg sama hætti og undanfarin ár, en hann skilur gremju íbúa. „Það er eðlilegt að mönnum finnist þetta þegar þarf að loka svona oft með stuttu millibili eins og reyndin hefur verið síðustu vikur. En verklagið er það nákvæmlega sama og við bara beitum ákveðnum aðferðum við það að finna út hvenær við þurfum að loka og erum þá fyrst og fremst að hugsa um öryggi vegfarenda," segir G. Pétur. Þá sé oft lokað í skamman tíma 

Lokanir hafi margsannað sig

Vegagerðin sendi frá sér tilkynningu nú seinnipartinn vegna þessara fregna. Þar segir að breytt aðferðafræði Vegagerðarinnar við að loka fjallvegum vegna ófærðar og veðurs hafi margsannað sig. Aðferðafræðinni hefur verið beitt í nokkur ár og hefur bætt ástand sem annars stefndi í óefni. Þær breytingar sem orðið hafa á samsetningu vegfarenda, til dæmis vegna stóraukinnar vetrarferðamennsku, sem kalli á breytt verklag við lokanir fjallvega.