Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Lokað fyrir umferð inn í Þórsmörk

11.06.2010 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Almannavarnir hafa ákveðið að loka fyrir almenna umferð inn í Þórsmörk. Þetta var ákveðið á fundi Almannavarna í dag vegna þess að vatn hefur safnast fyrir í gígnum í Eyjafjallajökli og hætta er á skyndilegum flóðum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með vísindamenn yfir gosstöðvarnar í kvöld til að kanna aðstæður. Hún er lenti rétt fyrir klukkan tíu í kvöld.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur var með í för. Hann segir að snemma í morgun, þegar flogið var yfir eldstöðvarnar, hafi menn tekið eftir því að vatn væri komið í botninn á gígnum. Á fundi Almannavarna hafi verið ákveðið að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að fljúga yfir eldstöðvarnar til að reyna að mæla hæðina á vatninu og gígrimanum, til að meta hversu mikið vatn geti safnast þarna og hversu hratt.  Lón sé komið í gíginn, um 300 metrar í þvermál og á að giska 10 metra djúpt.

Þó ekki sé ljóst hversu hratt vatnið safnist muni það að öllum líkindum leiða til hlaups niður Gígjökul. Ekki séu hinsvegar miklar líkur á að það gerist allra næstu daga, segir Magnús Tumi. Það sé hins vegar full ástæða til takmarka umferð inn í Þórsmörk eins og yfirvöld hafa ákveðið.

Upplýsingaskilti er við Gígjökul þar sem kemur fram að bannað sé að vera á ferðinni við jökulinn vegna hættu á flóðum eða gasi. Fólk hefur ekki virt þetta bann og hefur verið mikil umferð við jökulhólana, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.