Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Loka sundlaugum í frostinu

31.01.2019 - 12:05
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Sundlaugum hefur verið lokað í Rangárvallasýslu í frosthörkunum og hitaveitan í Þorlákshöfn er nálægt þolmörkum. Miðað við veðurspá eru nú minni líkur á að takmarka þurfi aðgang að heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu á morgun en óljóst er með laugardaginn.

Sundlaugunum á Hellu, Laugalandi og Hvolsvelli hefur verið lokað. Í Þorlákshöfn verða hlutar lauga og pottar lokaðir á meðan frostið er mest. „Þar er verið að keyra veituna nærri þolmörkum og við erum einnig að takmarka afhendingu til stærri notenda þar,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Fyrr í vikunni var útlit fyrir að loka þyrfti sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu á morgun, föstudag. „Svona miðað við veðurspár þá hefur dregið úr líkum á því að við þurfum að gera það á morgun föstudag en svo er gert ráð fyrir mjög kólnandi veðri á laugardag og sunnudag og þá geta líkurnar aukist á að við þurfum að grípa til takmarkana á afhendingu. En þetta miðast náttúrulega við það að allt annað sé í lagi.“ 

Skortur er á heitu vatni og hafa Veitur beint þeim tilmælum til fólks að fara sparlega með heita vatnið. Notkunin hefur aðeins aukist í kuldanum en hægt hefur á þeirri aukningu. „Við teljum að það sé að virka við höfum til dæmis verið að fá svolítið af símtölum frá almenningi þar sem fólk er að leita ráða um hvað það geti gert heima hjá sér. Og svo erum við náttúrulega að sjá þessa að það sé að hægja á aukningunni,“ segir Ólöf. Þess má geta að spáð er hlýnandi veðri eftir helgi.