Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loka Starbucks og fræða starfsfólk um rasisma

27.05.2018 - 11:24
epa06673901 Protest are ongoing at a Starbucks in Center City Philadelphia, PA, USA on 16 April 2018 days after two black men were arrested at the location. The two men agreed to meet with Starbucks CEO Kevin Johnson who issued a public apology.  EPA-EFE
Mótmæli á kaffihúsi Starbucks í Fíladelfíu þar sem tveir karlar voru handteknir í apríl. Þeir höfðu ekki brotið af sér á neinn hátt. Mynd: EPA
Kaffihúsakeðjan Starbucks Bandaríkjunum ætlar að halda námskeið á þriðjudag og fræða starfsfólk sitt um kynþáttamisrétti. Öllum kaffihúsum Starbucks verður lokað þann dag. Ákveðið var að halda námskeiðið eftir að tveir þeldökkir karlmenn voru handteknir á Starbucks kaffihúsi í Fíladelfíu 12. apríl síðastliðinn.

Handtaka þeirra vakti hörð viðbrögð enda höfðu þeir ekki brotið af sér á neinn hátt. Mennirnir tveir komu inn á kaffihúsið og annar þeirra bað um leyfi til að fara á salerni. Þá var honum sagt að það væri aðeins fyrir viðskiptavini. Þá settust þeir niður og biðu eftir þeim þriðja sem ætlaði að hitta þá þar, áður en þeir pöntuðu sér veitingar. Forstöðumaður kaffihússins hringdi þá á lögreglu. Myndbandi af atvikinu var dreift víða á samfélagsmiðlum. Í myndbandinu má sjá þegar mennirnir voru handteknir og viðskiptavinur spurði lögreglu í sífellu hvað þeir hefðu gert af sér.

„Hvort sem það er í verslunum eða í lestum, maður sér þetta öllum stundum, beint eða óbeint,“ segir James Bell ráðgjafi við skóla í Brooklyn, í samtali við AFP fréttastofuna. Hann er þeldökkur og segir að í verslunum sé starfsfólk sífellt að hafa afskipti af honum, þegar það sjái þeldökkan hann detti því strax í hug að hann sé glæpamaður. Bell bendir á annað nýlegt atvik, sem átti sér stað fyrr í þessum mánuði, þegar þeldökkur nemandi við Yale háskólann lagði sig á gangi skólans og hringt var á lögreglu. 

Öll átta þúsund kaffihús Starbucks í Bandaríkjunum verða lokuð á þriðjudag á meðan námskeiðið fer fram. Starfsmennirnir eru um 175.000 talsins. Á vef Starbucks segir að á námskeiðinu horfi starfsfólkið á heimildarmynd eftir Stanley Nelson um sögu fólks af afrískum uppruna í Bandaríkjunum og ræða í litlum hópum um reynslu sína af kynþáttamisrétti.