Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loka skólum og íþróttahúsi í Mývatnssveit

23.03.2020 - 05:23
default
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Leikskólanum Yl í Skútustaðahreppi hefur verið lokað tímabundið, skólahald í Reykjahlíðarskóla fellt niður og íþróttahúsinu lokað. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, sendi sveitungum sínum í gærkvöld.

Þar kemur fram að gripið sé til þessara aðgerða í ljósi þess að mikið óvissuástand hafi skapast í sveitarfélaginu. Í það minnsta einn íbúi hafi greinst með COVID-19 og þar að auki sé ljóst að hátt á annan tug íslenskra ferðamanna, sem dvöldust í Mývatnssveit um síðustu helgi, hafi reynst smitaður.

Þegar svo litið sé til hertra aðgerða sem heilbrigðisyfirvöld kynntu í gær hafi niðurstaðan orðið sú að til að gæta ítrustu varúðar gagnvart viðkvæmustu íbúum hreppsins og draga úr smithættu væri rétt að fella niður hefðbundið skólahald í hvort tveggja leikskóla og grunnskóla og loka íþróttahúsinu.

Var ákvörðunin tekin af viðbragðsteymi Skútustaðhrepps í samráði við forstöðumenn fyrrnefndra stofnana, formann skólanefndar og fulltrúa Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.