Loka Reykjadal fyrir umferð ferðamanna

30.03.2018 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun ákvað í dag að loka svæði í Reykjadal í Ölfusi vegna aurbleytu. Bleytan og mikið álag vegna fjölda ferðamanna sem fara þarna um hefur leitt til jarðvegsskemmda. Því ákvað Umhverfisstofnun að loka svæðinu frá klukkan tíu á morgun og gæti það verið lokað í allt að tvær vikur. Það ræðst þó af því hvaða áhrif veður og hitastig hafa á aðstæður í dalnum.

Moldarsvað og klaki í jörðu

„Við fengum ákall um að loka þessu svæði og sendum starfsmann á þetta svæði til að skoða ástand. Ástandið er þannig að þarna er jarðvegur mjög blautur. Það er klaki víða undir. Þarna eru orðið mjög slæmt ástand á þessu umhverfi,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. 

„Það eru þarna viðvarandi skemmdir eins og staðan er núna. Þess vegna þótti okkur ástæða til að taka þessa ákvörðun um að loka svæðinu fyrir umferð,“ segir Ólafur. „Þar sem göngustíg sem var gerður fyrir stuttu síðan sleppir er ástandið mjög slæmt. Þar er bara moldarsvað og ís er þar ennþá og klaki í jörðu. Þetta eru ekki góðar aðstæður. Þarna er fólk líka að fara út fyrir hefðbundinn stíg, þannig að hann hefur verið að breikka. Ástandið er bara afleitt.“

Betra að snúa við en skemma út frá sér

Fólk fer út fyrir stíg þar sem svörðurinn er viðkvæmastur til að komast hjá því að stíga í leðju og gerir það á viðkvæmasta tíma. Því verða viðbrögð fólks við erfiðum aðstæðum til að skemma enn frekar fyrir. Ólafur segir að í þeim tilvikum sé langbest að fólk snúi einfaldlega við heldur bíði frekar með ferðir sínar þar til ástandið er betra. 

Ástandið núna er afleiðing þess að mikill fjöldi ferðamanna kemur á staðinn meðan frost er að fara úr jörðu og hún mjög blaut. „Meðan allt liggur í frosti og undir snjó sjáum við ekki þessar sömu afleiðingar. Það sem núna er að gerast, þegar vorar frekar snemma og mikið af ferðamönnum, er þetta viðkvæmasti tíminn,“ segir Ólafur. Nú er viðkvæmasti tíminn og þeim mun ofar sem fólk fer er jarðvegurinn viðkvæmari. „Og verður áfram viðkvæmt næstu vikurnar.“ Ólafur segir að veður og hitastig ráði mestu um hversu lengi aðstæður verði eins og núna. „Ef það verða áframhaldandi hlýindi á ég von á því að þetta geti lagast á næstu tveimur vikum eða svo,“ segir Ólafur, aðspurður hversu lengi svæðið kunni að vera lokað.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV