Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loka öllum stöðum Dunkin Donuts á Íslandi

04.01.2019 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Blær
Basko ehf. hefur lokað öllum stöðum Dunkin Donuts á Íslandi. Sigurður Karlsson, forstjóri Basko, segir að ástæðan sé fyrst og fremst hár rekstrarkostnaður. „Auðvitað eru þetta vonbrigði en það gengur ekki allt upp sem maður reynir.“ Hann segir að nokkrir starfsmenn missi vinnuna en aðrir verði fluttir í önnur störf hjá fyrirtækinu.

Dunkin Donuts rak fjögur kaffihús, í Kringlunni, í verslun 10-11 við Hagasmára í Kópavogi, á Fitjum í Reykjanesbæ og í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þeim hefur öllum verið lokað frá og með áramótum.

„Viðtökurnar voru mjög góðar í upphafi,“ segir Sigurður. Hins vegar hafi kostnaður reynst of hár þannig að dæmið hafi ekki gengið upp. 

„Samhliða þessu erum við að selja verslanir til Samkaupa og erum búin að afhenda þeim 11 verslanir. Í því fólst að við færðum okkur úr vöruhúsinu sem framleiðsla Dunkin Donuts var í og við vildum ekki stofna til meiri kostnaðar við að færa hana annað. Aðalástæðan er þó hár launakostnaður, rekstrarkostnaður og framleiðslukostnaður.“

Sigurður segir að vandinn einskorðist ekki við Ísland heldur hafi Dunkin Donuts átt erfitt uppdráttar víðsvegar í Evrópu. Til dæmis sé búið að loka stöðum í Svíþjóð og fækka stöðum í Danmörku.