Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Loka leið að flugvélarflakinu

14.03.2016 - 17:25
Indverska kvikmyndastjarnan Shah Rukh Khan á Douglas Dakota flugvélarflaki á Sólheimasandi.
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Landeigendur lokuðu landinu í vor vegna utanvegaaksturs. Mynd: Benedikt Bragason - RÚV
Landeigendur á Sólheimasandi hafa lokað leiðinni að flugvélaflaki sem þar er og hefur dregið að sér mikinn fjölda ferðamanna. „ Við erum búnir að loka tímabundið á meðan við leitum ráða um hvernig við eigum að bregðast við utanvegaakstri. Þetta lítur orðið illa út og við getum ekki haft þetta svona“, segir Benedikt Bragason á Ytri Sólheimum, einn landeigenda.

Benedikt segir að akstur hafi fari úr böndum undanfarið, eftir að snjóa tók að leysa. Nú séu för um allt og svæðið líti illa út. „Við viljum reyna að bregðast við því. Þetta er ekki fallegt eins og það er og við viljum hafa þetta þannig að þetta líti vel út og fólk vilji heimsækja okkur og skoða“. Benedikt segir að þeir bændur hafi ákveðið þetta í morgun. „Við erum undir það búnir að þetta verði mörgum vonbrigði, þetta er einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum sem við eigum hérna í hreppnum“. 

Eftirsóttur staður

Benedikt segir að minnst af því landi sem spillst hafi sé gróið land. „Við höfum verið að reyna að græða þetta. Ef þetta væri gróið myndi það jafna sig miklu fyrr og betur, en þessi sár sjást miklu lengur“. Benedikt segist búast við að reynt verði að marka eina leið niður að flakinu. Flugvélaflakið á Sólheimasandi er af Douglas Dakota flugvél. Það þekkja margir úr myndböndum Justins Bieber og indversku kvikmyndastjörnunnar Shah Rukh Khan sem tekin voru á Sólheimasandi og í nágrenni. Samkvæmt heimildum Fréttastofu leggja margir ferðamenn sem ferðast með jeppum um landið ofuráherslu á að koma að flakinu og taka þar myndir.

„Við þurfum hjálp“

„Við verðum að merkja þetta betur og leggja einhverja vegi svo menn geti keyrt með einhverjum sóma þarna niðureftir. Við eigum eftir að koma saman hérna landeigendur og ræða hvað við getum gert. Við erum bara bændaræflar hér og eigum ekki endalausa peninga til að ausa í þetta. Við verðum að fá einhverja hjálp í þessu“, segir Benedikt Bragason. Hann staðfestir að bændurnir hafi ekki beinar tekjur af flakinu. „Neinei, ekki beinar tekjur. En að sjálfsögðu höfum við óbeinar tekjur af því þegar að ferðamenn koma í hreppinn okkar og kaupa af okkur ýmsa þjónustu“.

Á myndunum að ofan má sjá indversku kvikmyndastjörnuna Shah Rukh Khan á flugvélarflakinu og landskemmdir þar sem lagt er af stað niður á sandinn.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV