Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Loka Fjaðrárgljúfri í tvær vikur

26.02.2019 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun lokar á morgun Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi fyrir umferð gesta. Um er að ræða gönguslóða meðfram gilinu en svæðið er á náttúruminjaskrá. Svæðið er mjög illa farið vegna mikils fjölda ferðamanna, snöggra veðrabreytinga, hlýinda og mikillar vætu.

Ákvörðunin er tekin með vísan til náttúruverndarlaga. Um skyndilokun er að ræða sem mun standa í tvær vikur. Stefnt er á að kanna þá aftur ástand svæðisins og meta hvort aðstæður hafi batnað.

Fjaðrárgljúfri var einnig lokað í janúar vegna álags. Þá sendi Sveitarstjórn Skaftárhrepps frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmaði þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að hafa ekki starfandi landvörð við Fjaðrárgljúfur frá áramótum og fram á sumar. Ljóst sé að svæðið þoli ekki gestafjöldann sem þangað leitar án landvörslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er heilsárslandvarsla nú tryggð á svæðinu með samkomulagi milli Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem tilkynnt var um í byrjun febrúar.