Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Loka augunum fyrir kynferðisofbeldi

31.07.2018 - 11:40
epa05578424 A handout picture provided on 09 October 2016 by Oxfam International shows members of a emergencies team of Oxfam delivering hygiene kits to prevent the spread of Cholera and other diseases in the town of Camp Perrin, department Sud, Haiti,
Oxfam-liðar að störfum á Haíti. Mynd: EPA - EFE/Oxfam International
Hjálparsamtök sem sinna mannúðarverkefnum hafa gerst sek um stórkostlegt andvaraleysi og eru allt að því samsek þeim starfsmönnum sem hafa orðið uppvísir að því að beita fólk í neyð kynferðislegu ofbeldi. Þetta er niðurstaða skýrslu breskrar þingmannanefndar sem kynnt var í morgun.

Skýrslan er mikill áfellisdómur yfir framferði hjálparsamtaka gagnvart fólki í neyð. Formaður nefndarinnar, Stephen Twigg, segir að samtökunum sé oft meira í mun að varðveita orðstír sinn en að vernda skjólstæðinga þeirra.

Breska blaðið The Times greindi frá því í febrúar að starfsmenn hjálparsamtakanna Oxfam hefðu greitt eftirlifendum jarðskjálftans á Haítí árið 2011 fé fyrir kynlíf. Breska þingið setti þá þingnefnd á laggirnar til þess að fara í saumana á öllum hjálparsamtökum í Bretlandi sem aðstoða fólk í neyð. Hjálparsamtökin fagna skýrslunni en talsmaður Oxfam segir lestur skýrslunnar hafa verið sársaukafullan.

Í skýrslunni segir að stjórnendur samtaka hefðu getað og gætu gert miklu meira til þess að fyrirbyggja að einstaka starfsmenn nýti sér neyð fólks til þess að beita það kynferðislegu ofbeldi. Þrátt fyrir að stjórnendur hafi oft og tíðum vitað af ofbeldinu hafi þeir ekki tekið á vandanum af nægilegri röggsemi. Öll viðbrögð hafi verið tilviljanakennd og silaleg og stjórnendur hafi oft talið sér trú um að þeim hefði tekist að leysa vandann áður en hann varð opinber.

Nefndin skorar á mannúðarsamtök að taka sig saman í andlitinu og undirstrikar að fórnarlömb náttúruhamfara hljóti alltaf að vera það sem störf þeirra eigi að snúast um.

Hún leggur áherslu á fjögur atriði: Að þiggjendur aðstoðar þekki rétt sinn og viti að kynferðislegt ofbeldi sé ekki liðið, að brugðist skuli hratt við öllum tilkynningum og frásögnum af kynferðislegu ofbeldi og að tryggt sé að þeir sem gerist sekir um að níðast á fólki í neyð geti ekki látið flytja sig um set og haldið uppteknum hætti, eins og dæmi eru um.