Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögum úr Söngvakeppninni lekið á netið

19.01.2018 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Söngvakeppnin
Nokkrum lögum sem átti að frumflytja í sérstökum upphitunarþætti Söngvakeppninnar í kvöld var lekið á netið í dag og var meðal annars hægt að hlusta á brot úr þeim á You Tube. Þá var listi með öllum þátttakendum einnig gerður opinber á aðdáendasíðum tengdum Eurovision.

Listinn og lögin eru talin hafa birst fyrst á rússneskri samfélagsmiðla-síðu og þaðan hafa verið dreift víða, meðal annars á You Tube. RÚV hafði strax samband við myndbandasíðuna og fór fram á efnið yrði fjarlægt og var brugðist við því samdægurs.

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar virðist innbrotsleiðin hafa verið í gegnum skiptiskjöl sem innihélt þessar upplýsingar.  

Birna Ósk Hansdóttir, sem situr í framkvæmdastjórn keppninnar, segir að málið verði skoðað frá öllum hliðum. 

Þetta beri þó vott um áhuga á keppninni og að áhugamenn geri hvað sem er til að komast í þessar upplýsingar.„Lærdómurinn sem við drögum af þessu er að gæta verður enn betur að leyndinni sem hvíla á yfir lögunum og upplýsingum í kringum þau áður en það er opinberað.“

Kynningarþáttur Söngvakeppninnar verður á dagskrá kl.19.40 á RÚV í kvöld og eftir það verða öll lögin aðgengileg.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV