Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglustöð á fæðingarstað Hitlers

20.11.2019 - 07:00
Mynd með færslu
Adolf Hitler fæddist á efstu hæð þessa húss í Braunau í Austurríki. Húsið verður rifið á næstunni.  Mynd: EPA
Fæðingarstaður Adolfs Hitlers í Austurríki verður gerður að lögreglustöð. Innanríkisráðuneyti Austurríkis greindi frá þessu. Stjórnvöld vonast til þess að þannig verði komið í veg fyrir að húsið verði að líkneski fyrir nýnasista.

Hitler fæddist í húsi í borginni Braunau, nærri landamærum Austurríkis og Þýskalands 20. apríl árið 1889. Það var fært í umsjá stjórnvalda árið 2016 eftir margra ára deilur fyrir dómstólum við fjölskyldu Gerlinde Pommer, sem átti húsið í nærri 100 ár. Þeim deilum lauk á þessu ári með úrskurði hæstaréttar um bætur til fjölskyldu Pommers frá ríkinu. 

Innanríkisráðuneytið leitar nú til arkitekta til þess að breyta húsinu í lögreglustöð. Þannig verða send skýr skilaboð um að húsið verði aldrei staður til að minnast nasisma, segir í fréttatilkynningu frá Wolfgang Peschorn, innanríkisráðherra Austurríkis. 

Pommer leigði innanríkisráðuneytinu húsið frá því á áttunda áratugnum til ársins 2011. Ráðuneytið notaði húsið undir aðstöðu fyrir fólk með fötlun. 2011 neitaði Pommer að verða við beiðni um nauðsynlegar endurbætur á húsinu, og neitaði einnig að selja það. Síðan þá hefur húsið staðið autt. Innanríkisráðuneytið lagði það til á sínum tíma að rífa húsið, en mætti mikilli andstöðu jafnt frá stjórnmálamönnum og sagnfræðingum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV