Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglumenn unnu aukalega í sumarleyfum

21.09.2015 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystr - RÚV
Stefnt er að því að lögreglan ljúki störfum við Holuhraun í lok mánaðarins. Yfirlögregluþjónn segir að verkefninu hafi fylgt aukið álag á undirmannað lögreglulið landsbyggðarinnar og margir hafi unnið hluta úr sumarleyfi sínu við Holuhraun.

Lögreglan hefur haft aðstöðu í skála Ferðafélags Akureyrar í Drekagili í heilt ár. Þar hefur verið stöðug viðvera lögreglu þar sem Holuhraun hefur verið talið hættusvæði. Í nýlegri skýrslu Ríkislögreglustjóra kemur fram að lögreglan telur sig ekki geta haldið uppi viðunandi öryggisstigi á landsbyggðinni vegna manneklu. Verkefninu hefur því fylgt aukið álag á lögreglumenn.

Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, var á leiðinni að Holuhrauni til að meta aðstæður þegar fréttastofa náði af honum tali.

„Jú jú, það tekur á en þetta er mikið til leyst með aukavinnu og þar af leiðandi er meira vinnuálag. Margir sem hafa verið hérna í sumar hafa verið part úr sumarfríunum sínum hérna uppfrá þannig að það svosem bætir ekki mikið í löggæsluna þegar þeir koma aftur niður,“ segir Kristján.

Vaktinni lýkur í mánaðarlok
Dagleg störf hafa snúist um eftirlit með svæðinu, gasmælingar og aðstoð við ferðafólk. Vinsælt hefur til dæmis verið, að fara að heitri lind sem er við austurenda svæðisins.

„Við höfum verið hérna fyrst og fremst til að gæta öryggis, og það hefur verið vegna þess að það hefur verið almannavarnaástand hér. Væntanlega lýkur því í lok þessa mánaðar,“ segir Kristján Kristjánsson.