Lögreglumenn fá miskabætur

06.01.2016 - 12:51
Lögreglumaður
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Tveimur lögreglumönnum á Ísafirði voru í Héraðsdómi Vestfjarða í gær dæmdar miskabætur úr hendi manns sem hótaði eða reyndi að stinga þá með hnífi aðfaranótt 17. nóvember 2014.

Reyndi að stinga lögreglumennina

Lögreglan var kölluð að heimili mannsins, sem talinn var vera í sjálfsvígshugleiðingum. Þegar lögreglumennirnir komu á staðinn hafði maðurinn skaðað sig lítillega. Hann brást illa við komu lögreglumannanna, enda taldi hann sig ekki eiga góðu að mæta af hálfu lögreglu. Lögreglumennirnir og vitni báru að maðurinn hafi, með hníf í hendi, komið snögglega út úr húsi sínu og ítrekað reynt að stinga lögreglumennnina, sem höfðu áður beitt á hann piparúða. Lögreglumennirnir vörðust með kylfum og bæði fingur- og handleggsbrutu mannninn, sem sleppti þó aldrei hnífnum. Lögreglumennina sakaði ekki. Félögum hans tókst að fá hann til að láta frá sér hnífinn og koma út úr húsinu þar sem hann var handtekinn.

Örfá dæmi um bætur sem þessar

Hann var í héraðsdómi sakfelldur fyrir atlögurnar að lögreglumönnunum og einnig fyrir að hóta þeim líkamsmeiðingum síðar um nóttina á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, og til að greiða hvorum lögreglumanni um sig 150 þúsund krónur í miskabætur. Þess eru aðeins örfá dæmi að lögreglumönnum séu dæmdar slíkar bætur, án þess verða fyrir beinu líkamstjóni. 

Broddi Broddason
Fréttastofa RÚV
hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi