Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lögreglumenn eru einir í Drekagili

21.12.2014 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðvísindastofnun hyggst ekki senda vísindamenn í Drekagil til að fylgjast með eldgosinu fyrr en eftir áramót. Vísindamenn Veðurstofunnar hafa ekki komist á staðinn vegna ófærðar. Aðeins lögreglumenn eru við gosstöðvarnar.

Síðustu vísindamennirnir frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fóru úr Drekagili í byrjun desember. Þeir hafa haft aðsetur í Dreka, skála Ferðafélags Akureyrar, allt frá því að gosið hófst. En í lok nóvember var ákveðið að láta flug á gosstöðvarnar duga til að fylgjast með framvindu gossins.

Vísindamenn á vegum Veðurstofu Íslands hafa heldur ekki verið við gosstöðvarnar í desember. Þeir hafa ekki komist á staðinn sökum erfiðrar færðar og vonskuveðurs að undanförnu.

Lögreglan hefur hins vegar haldið úti vakt á lokaða svæðinu frá upphafi goss og gerir enn. Lögreglumenn sinna líka viðvikum fyrir vísindamenn og almannavarnir eins og að taka hitamyndir af hrauninu og líta til með mælitækjum. Alla jafna eru tveir lögreglumenn á staðnum og dvelja þar fjóra daga í senn. Hermann Karlsson varðstjóri segir að þeirra hlutverk sé að vera til staðar og taks og annast eftirlit. „En aðalverkefnið okkar er að vera hér og fylgjast með ef það eru einhverjar mannaferðir,“ bætir hann við.

Hermann segir að ástandið hafi verið gott að undanförnu, sérstaklega eftir að það fór að snjóa og svæðið lokaðist sjálfkrafa. Almannavarnir lokuðu svæðinu nærri gosstöðvunum í lok október. Síðan þá hafa aðeins fáeinir hópar fjölmiðlamanna fengið leyfi til að fara inn á svæðið.

Hópur frá áströlskum fjölmiðli ætlaði að gosstöðvunum fyrir skömmu en varð frá að hverfa sökum veðurs og færðar. Lokunin hefur nokkuð verið gagnrýnd. Margir, sérstaklega í ferðaþjónustu, hafa áhuga á að fara inn á svæðið og skoða gosið.

„Menn vita náttúrulega ekki í hvaða átt eða stefnu það tekur. Eins er náttúrlega gasmengun,“ bendir Hermann. „Hún er kannski það nýjasta fyrir okkur Íslendinga að glíma við. Við þekkjum þetta umhverfi og hætturnar þegar gerir stórhríð, þegar það er sandfok og þegar það er eitthvað sem við sjáum en við þurfum að læra að umgangast betur gas og mengun, það sem við sjáum ekki.“

Lögreglan hefur notið aðstoðar heimamanna í Möðrudal til að komast inn á svæðið en afar þungfært er á þessum slóðum og mikill krapi og ís í ám. Á meðan svo er, eru litlar líkur á að lögreglan fái félagsskap í Drekagili.

„Þetta verður aðeins öðruvísi,“ segir Hermann. „Við höfum náttúrlega haft félagsskap af vísindamönnum og öðrum sem hafa verið hér, og það er bara ágætasta mál. Að sama skapi er auðveldara að fara í aðgerðir ef eitthvað kemur uppá. Þá er hér færra fólk og auðvelt að bregðast við. En við lifum þetta alveg af og það fjölgar hérna strax eftir áramót.“