Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Lögreglumaður mótmælti á Íslandi

10.01.2011 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Breskur lögreglumaður sem í sjö ár hafði það verkefni að njósna um umhverfisverndarhópa var virkur í mótmælum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hann hefur nú verið afhjúpaður í Bretlandi og segist hafa snúist á sveif með aðgerðasinnum. Hvorki þeir né lögregla eru sagðir treysta honum.

Breska blaðið Guardian fjallar um málið í dag. Mark Stone, réttu nafni Mark Kennedy, er breskur lögreglumaður sem í sjö ár hafði það verkefni að lauma sér í aðgerðarhópa umhverfissinna, komast að áformum þeirra og láta starfsbræður sína í lögreglunni vita. Kennedy er sagður hafa ferðast til fleiri en tuttugu og tveggja landa með fölsuðu vegabréfi og tekið þátt í mótmælum á Íslandi, Spáni og í Þýskalandi. Blaðið rekur feril hans og segir að upp um hann hafi komist eftir að mál gegn honum vegna mótmæla á Bretlandi hafi verið látið niður falla. Eftir það sagðist hann hafa snúist á sveif með mótmælendum og vildi berna vitni fyrir hönd sex manna fyrir dómi í Bretlandi. Það mál létu bresk yfirvöld niður falla frekar en að afhenda gögn um Kennedy og starf hans fyrir lögregluna. Guardian segir ekki vitað hvar Kennedy sé að finna og talið að hvorki lögregla né aðgerðarsinnar treysti honum.


Fréttastofa sendi fyrirspurn til Saving Iceland um Mark Kennedy og barst svar frá samtökunum rétt fyrir hádegi. Þar segir að þau þekki Kennedy. Hann hafi komið til Íslands sumarið 2005 og tekið þátt í aðgerðum gegn Alcoa og Kárahnjúkavirkjun. Saving Iceland telur málið segja mikið um viðleitni stjórnvalda á Bretlandseyjum og á Íslandi til að gera tortryggilega þá hópa sem nýti sér lögbundinn rétt til að að mótmæla. Spyr hópurinn hvort íslenska lögreglan hafi verið látin vita af veru Kennedys í búðum Saving Iceland og hvort íslensku lögreglunni hafi verið látnar í té upplýsingar sem hann aflaði meðan hann var virkur eins og það er orðað. Spurt er einnig hvort íslenska lögreglan hafi átt í samskiptum við Kennedy og yfirmenn hans og hvort hann hafi tekið þátt í að þjálfa íslenska lögreglumenn sem hafi verið sendir á námskeið til bresku lögreglunnar veturinn 2005 og 2006.


Samkvæmt upplýsingum fréttastofu höfðu lögreglan á Eskifiriði eða Seyðisfirði ekki afskipti af Kennedy þegar til mótmæla kom vegna Kárahnjúkavirkjunar.