
Jens Hilmarsson starfar nú sem varðstjóri á Seyðisfirði og hefur undanfarnar vikur sinnt löggæslustörfum á bílaleigubíl. „Já við erum aðstöðulaus. Ég hef verið á þessum bíl síðasta mánuðinn. Það stendur nú til bóta að það komi lögreglubíll. Trúlega í næsta mánuði,“ segir Jens.
Við höldum inn í húsnæði tollsins á Seyðisfirði en þar fékk Jens inni. Hann þarf nú að eiga við brotamenn í herbergi sem er lítið stærra en kústaskápur. „Þetta er sem sagt gömul aflögð kaffistofa. Sirka 7 fermetra herbergiskytra þar sem við höfum afdrep núna. Hún er náttúrlega ekki boðleg og ekki til framtíðar og það er stefnt að því að komast í betra húsnæði. Innan tíðar.“
Á Seyðisfirði var einu sinni lögreglustöð en stöðinni var lokað og húsnæðinu breytt í Vínbúð. Nú eru uppi hugmyndir um að lögregla, tollurinn og hafnarvernd verði í nýju sameiginlegu húsnæði niðri við höfnina. Á meðan enginn lögreglumaður var á Seyðisfirði var löggæslu alfarið sinnt frá Egilsstöðum en nú er öldin önnur og stendur til að ráða annan lögreglumann til starfa á Seyðisfirði við hlið Jens.
Það er fleira en landamæraeftirlit vegna Norrænu og um 70 skemmtiferðaskipa á sumri sem útheimtir lögreglumenn á staðnum. Þar er haldin á hverju sumri listahátíð ungs fólk á Austurlandi, LungA, sem dregur að sér skemmtanaglaða gesti. „Hér í þessu húsi eru náttúrulega engir fangaklefar og ekki hægt að vista ölvað fólk sem þarf að sofa úr sér út af afbrotum eða þess háttar. Við höfum þurft að vista það uppi á Egilsstöðum með tilheyrandi flutningum. Þetta er ekki boðleg aðstaða fyrir útihátíðir,“ segir Jens Hilmarsson, lögregluvarðstjóri á Seyðisfirði.
Lögreglustjórinn á Austurlandi, Seyðisfjarðarkaupstaður og dómsmálaráðuneytið vinna að því að koma upp fullnægjandi aðstöðu í bænum.