Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lögreglumaður ákærður fyrir að slasa ökuþór

28.01.2019 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Héraðssaksóknari ákærði fyrr í mánuðinum lögreglumann fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og brot í opinberu starfi fyrir að valda umferðarslysi við eftirför á Þjórsárdalsvegi í maí í fyrra. Ökumaðurinn hálsbrotnaði og hlaut stóran skurð inn að höfuðkúpu.

Lögregla sendi frá sér tilkynningu um eftirförina 13. maí í fyrra. Þar kom fram að ölvaður maður hefði gengið berserksgang á gröfu við heimili sitt í Biskupstungum. Á leið sinni á vettvang hefðu lögreglumenn mætt manninum á bíl og gefið honum stöðvunarmerki sem hann sinnti ekki.

Lögregla hafi veitt honum eftirför og þvingað bíl hans út af veginum. Við það fór bíll mannsins, Land Cruiser-jeppi, tvær veltur út af veginum og endaði á réttum kili, að því er segir í ákærunni á hendur lögreglumanninum. Maðurinn var fluttur með þyrlu á spítala í Reykjavík og í ákæru segir að hann hafi brotnað á hálslið og fengið tíu sentimetra langt sár á hnakka inn að höfuðkúpu.

Málið vakti sérstaka athygli vegna þess að maðurinn sem slasaðist skipaði annað sæti á framboðslista Nýs afls í Bláskógabyggð og eftir krísufund ákvað forsvarsfólk listans að biðja hann að taka ekki sæti í sveitarstjórn næði hann kjöri – sem hann gerði reyndar ekki frekar en aðrir á listanum.

Í ákærunni segir að lögreglumaðurinn, sem er hálfsextugur, hafi ekki gætt lögmætra aðferða við eftirförina þegar hann ók þrívegis á vinstra afturhorn Land Cruiser-jeppans. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. febrúar.