Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglufulltrúinn bauðst sjálfur til að víkja

14.01.2016 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglufulltrúinn, sem er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, bauðst sjálfur til þess að víkja úr fíkniefnadeildinni síðastliðið sumar á meðan ávirðingar á hendur honum væru skoðaðar og niðurstaða fengin í málið. Mál lögreglufulltrúans hefur verið í athugun frá því um mitt síðasta ár. Þetta kemur fram í skriflegu svari Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns, við fyrirspurn fréttastofu.

Lögreglufulltrúanum var í dag vikið frá störfum tímabundið. Hann er annar starfsmaður fíkniefnadeildar í þessari viku sem vikið er frá störfum - hinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald skömmu fyrir áramót. Þar liggur fyrir hljóðupptaka sem barst embætti ríkissaksóknara um miðjan síðasta mánuð.

Lögreglufulltrúinn er grunaður um brot í starfi. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfesti það en vildi ekki upplýsa hvers eðlis þau brot væru í samtali við fréttastofu í dag - málið væri á viðkvæmu stigi. Aðspurður hvort til stæði að hraða rannsókn málsins sagði Ólafur að slíkt væri ekki á teikniborðinu - málið yrði kannað gaumgæfilega.

Ítarlega hefur verið fjallað um mál lögreglufulltrúans að undanförnu en yfirmenn hjá lögreglu hafa verið tregir til að tjá sig. 

Fréttastofa hefur undanfarna daga sent fyrirspurnir til Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Jóns H.B. Snorrasonar, saksóknara hjá embættinu og Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns vegna málsins - fátt hefur verið um svör. 

Það breyttist í dag sama dag og ríkislögreglustjóri sagði í fréttum Bylgjunnar að yfirmenn yrðu að svara því hvernig hefði verið tekið á ásökunum á hendur lögreglufulltrúanum. Friðrik segir í svari til fréttastofu nú síðdegis að vegna „fyrirmæla ríkissaksóknara og ákvörðunar yfirstjórnar embættisins hér höfum við til þessa ekki haft heimild til að tjá okkur um þetta mál. Þær ákvarðanir hafa breyst.“ 

Friðrik Smári segir að í janúar fyrir fjórum árum hafi honum og Jóni H.B. Snorrasyni borist greinargerð frá Karli Steinari Valssyni, þáverandi yfirmanni fíkniefnadeildar, um ásakanir á hendur lögreglufulltrúanum.

Niðurstaðan í greinargerð Karls Steinars var að ásakanirnar ættu ekki við rök að styðjast og að engin ástæða væri til að vantreysta lögreglufulltrúanum. „Eftir könnun á gögnum málsins var ekki talið tilefni til þess að yfirstjórn LRH færi með þetta mál lengra með því t.d. að mælast til þess við ríkissaksóknara að fram færi lögreglurannsókn, þar sem ekki lá fyrir grunur um refsiverða háttsemi,“ segir í svari Friðriks Smára. Hann upplýsir einnig að lögreglufulltrúinn sjálfur hafi afhent greinargerð um þessar ásakanir.

Friðrik segir að ekki sé hægt að greina frá því hvers eðlis þessar ásakanir voru þar sem embætti héraðssaksóknara sé nú að rannsaka mál lögreglufulltrúans. Rétt er að ítreka að þetta er ekki sami maður og sat í gæsluvarðhaldi fyrir áramót. 

Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að hópur lögreglumanna í fíkniefnadeild hafi kvartað til Friðriks Smára, lögreglustjóra og embættis ríkislögreglustjóra, undan starfsháttum lögreglufulltrúans á síðasta ári. Samkvæmt heimildum fréttastofu viðruðu þeir ekki áhyggjur sínar við yfirmann fíkniefnadeildar, Aldísi Hilmarsdóttur.  

Friðrik Smári staðfestir í svari sínu til fréttastofu að staðið hafi yfir athugun á máli lögreglufulltrúans frá því um mitt síðasta ár. „Lögreglufulltrúinn bauðst síðastliðið sumar til þess að víkja úr deildinni á meðan ávirðingar á hendur honum væru skoðaðar og niðurstaða fengin í málið,“ segir Friðrik en fréttastofa hefur heimildir fyrir því að hann hafi farið fram á það við yfirmenn sína að mál hans yrði rannsakað af utanaðkomandi aðilum. Fréttastofu er ókunnugt um hvort orðið var við því.

Þá hefur verið fullyrt í fjölmiðlum að lögreglufulltrúinn hafi stýrt aðgerðum í tálbeituaðgerð fíkniefnadeildar lögreglunnar við Hótel Frón í apríl 2014. Aðgerðin misheppnaðist en hollensk kona og íslenskur maður fengu þungan dóm í málinu.

Fram kom á vef RÚV í gærkvöld að lögreglumaður í sérsveit ríkislögreglustjóra misskildi upplýsingar sem fóru um fjarskipti og framkvæmdi, ásamt öðrum, fyrirhugaða handtöku á íslenskum manni fyrr en áætlað var þegar tálbeituaðgerð fíkniefnadeildar lögreglu fór út um þúfur við Hótel Frón. 

Friðrik segir að aðkoma lögreglufulltrúans að lögregluaðgerðum við Hótel Frón í apríl 2014 hafi meðal annars falist í stjórnun aðgerða ásamt öðrum. „Í þessu samhengi vísa ég til svars yfirmanns sérsveitar ríkislögreglustjóra um þátt liðsmanns sérsveitarinnar sem og svör mín í fjölmiðlum um að tæknilegir örðugleikar við fjarskipti hafi gert það að verkum að fyrirmæli um aðgerðir hafi ekki komist nægilega til skila. Fram kom í svari yfirmanns sérsveitar að starfsmenn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og liðsmenn sérsveitar hafi fundað og farið yfir atvik í kjölfar aðgerðarinnar.“

Friðrik Smári segir að lokum í svari sínu að ávirðingar á hendur lögreglufulltrúanum séu til rannsóknar, engin ákæra hafi verið gefin út eða dómur felldur. „Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð,“ segir Friðrik Smári.

Sigríður Björk, lögreglustjóri, hafði ekki tök á að veita viðtöl vegna málsins í dag og vísaði á Friðrik Smára eða Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóra.