Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglan áfram í Drekagili

26.03.2015 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Lögreglumenn hafa staðið vaktina við Holuhraun frá því í ágúst. Þrátt fyrir að eldgosinu sé lokið verða þeir áfram á svæðinu næstu mánuði. Þeirra helsta hlutverk nú er að gæta þess að lokunarsvæði séu virt.

 Þrír á vakt í einu

Bækistöðin er í Drekagili, í skála Ferðafélags Akureyrar, en síðustu mánuði hafa þar verið þrír lögreglumenn á vakt hverju sinni, fimm til sex daga í senn. Stundum hefur langur tími liðið á milli þess sem einhver annar hefur verið á svæðinu, en þeir hafa þó haft í nógu að snúast. Aðalsteinn Júlíusson, lögreglumaður segir að dagdaglega fari lögreglumennirnir sem eru á vakt niður að hrauni og framkvæmi þar gasmælingar á ákveðnum stöðum. Þá ganga þeir úr skugga um að það sé óhætt fyrir fólk að fara að hrauninu. Mælingar eru gerðar á hverjum degi, ef veður leyfir og getur tekið nokkra klukkutíma að ljúka þeim. En gasmælingar eru bara hluti af skyldunum.

Aðstoða vísindamenn

„Við erum búnir að vera mikið að aðstoða vísindamenn og vera hér til staðar fyrir þá. Hér þarf að vera stöðug viðvera svo húsið í Drekagili sé heitt og allur búnaður þar í lagi. Það fer stór hluti af deginum okkar að viðhalda honum,“ segir Aðalsteinn. Ferðalangar geta fylgst með gasmælingum á loftgaedi.is og vedur.is.

Hættur og holur í Holuhrauni

Lögreglan ætlar líka fylgjast með því að bann við umferð um hraunið sjálft verði virt. „Það má alls ekki fara upp á hraunið. Það sem við teljum mesta hættu er að það er bæði hiti í því ennþá, það gufar upp úr því víða. Sums staðar er þunn skán ofan á, sem fólk getur stigið niður úr. Undir geta verið fleiri metra hellar, og þá er það kannski dottið niður í ennþá meiri hita,“ segir hann. 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV