Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögregla verður vopnuð 17. júní

13.06.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Vopnaðir lögreglumenn munu gæta öryggis á fjöldasamkomum 17. júní og Secret Solstice tónlistarhátíðinni um næstu helgi, og bera sýnileg vopn. Þetta segir Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri. Hann segir að lögregla hafi áhyggjur af því að voðaverk á borð við það sem framið var í Lundúnum verði framið hér á landi, og því verði lögregla vopnuð á fjöldasamkomum, allavega í sumar. Hann segir að hver sekúnda geti skipt máli.

Þjóðaröryggisráð kom saman til fundar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í gær. Á fundinum var meðal annars rætt um aukinn viðbúnað og vopnaburð lögreglu á fjöldasamkomum undanfarna daga. Lögregla hefur aukið viðbúnaðinn á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að vel athuguðu máli.

„Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að við erum ekki að auka vopnaburð. Það sem við erum að gera er að við erum að gera hina vopnuðu lögreglu í landinu, sérsveit ríkislögreglustjóra, sem dagsdaglega er undir vopnum, meira sýnilega á stórum samkomum. Samkomum þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni.“ 

Skjótara viðbragð

En hvers vegna er gripið til þess ráðs að auka sýnileikann?

„Það er sú þróun sem hefur átt sér stað í nágrannalöndunum. Nú síðast í London þar sem óðir menn gengu um og myrtu fólk á götum borgarinnar. Og það varð til þess að við þurftum að endurskoða okkar starfshætti í sérsveitinni og fórum þessa leið til að auka viðbragðið til þess að okkar viðbragð yrði skjótara en það var áður.“

Hefur þá farið fram nýtt áhættumat eftir árásirnar í London og Manchester?

„Já við fórum yfir stöðuna. Og okkur þótti ástandið orðið þannig að við gætum ekki látið nokkurn tíma líða þar til lögregla setur á sig vopn. Því hver sekúnda, hver mínúta, skiptir máli. Við sáum að breska lögreglan yfirbugaði þessa þrjá menn á átta mínútum, sem er til eftirbreytni.“

Á hverju er svona áhættumat byggt? Hvernig fer það fram?

„Við fáum til dæmis upplýsingar erlendis frá, til dæmis. Okkar sérfræðingar hér leggjast yfir málið, sérsveitarmenn koma að málinu og svo kemur þetta mat lögreglunnar. Þörfin birtist í þessu mati. Stundum er það trúnaðarmál og stundum ekki. En þetta er sem sagt það vinnulag sem við höfum.“

Þannig að þið óttist raunverulega að svona nokkuð geti gerst hér á landi, og þess vegna er sýnileikinn aukinn með þessum hætti?

„Já við höfum áhyggjur af því. Þess vegna erum við að grípa inn í þetta með þessum hætti.“

Mjög sýnilegir

Nú eru tvær stórar hátíðir um helgina, 17. júní á laugardaginn og Secret Solstice tónlistarhátíðin. Hvernig verður þessu háttað þar?

„Með þeim hætti sem verið hefur núna. Eins og í Color Run, þá verður þetta svipað.“

Þannig að til dæmis á 17. júní, þá getur fólk átt von á að sjá vopnaða lögreglumenn?

„Já. Við þurfum að átta okkur á því að sérsveitarmenn eru vopnaðir. Og þeir eru orðnir mjög sýnilegir í íslensku samfélagi. Þannig að almenningur er farinn að sjá vopnaða lögreglumenn mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar. En almenningur á von á að sjá vopnaða sérsveitarmenn á þessum stóru útihátíðum,“ segir Haraldur.

Ítarlega viðtal við Harald Johannessen verður birt á ruv.is síðar í dag.