Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lögregla rýnir í orkunotkun við leit að tölvum

22.02.2018 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Búnaðurinn sem stolið var í innbrotum í þrjú gagnaver þarf orku á við 5-600 heimili. Lögregla hefur fylgst grannt með raforkunotkun eftir þjófnaðinn án árangurs. Annar þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi á talsverða brotasögu.

Brotist var inn í þrjú gagnaver Advania og Borealis Datacenter og eitt gagnaver til viðbótar, auk þess sem reynt var að brjótast inn í það fjórða, eins og fram kom í fréttum RÚV í gær. Innbrotin voru í desember og janúar.

Níu manns voru handteknir í síðasta mánuði, fyrst einn – öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni – og hinir átta daginn eftir í samræmdu áhlaupi nokkurra lögregluembætta hér og þar um landið. Fjórir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tveir sitja enn í varðhaldi sem rennur út á morgun, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hefur ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á lengra varðhald.

Dularfull GPS-hnit á vefsíðu

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er annar þeirra sem enn eru í haldi rúmlega þrítugur maður búsettur á Akureyri sem á nokkurn sakaferil, meðal annars fyrir fíkniefnabrot. Hann var síðast dæmdur í fangelsi í nóvember fyrir að starfrækja umfangsmikla kannabisrækt.

Maðurinn heldur meðal annars úti tveimur vefsíðum sem innihalda ekkert annað en GPS-hnit fjögurra staða á litlu svæði á Akureyri. Hann hefur verið spurður um þetta í yfirheyrslum en ekkert viljað segja og lögregla hefur farið á staðina en ekkert fundið. Að svo stöddu eru engar grunsemdir um að hnitin tengist tölvuþjófnaðinum.

Lögreglan segir gagnaöflun og yfirheyrslur standa yfir, en mennirnir sem eru í haldi hafi ekki verið mjög samvinnuþýðir.

Búnaðurinn nýtist aðeins við rafmyntaleit

Tölvubúnaðurinn, sem talinn er vera um 200 milljóna króna virði, hefur ekki fundist. Hann er sérhæfður og nýtist einvörðungu við svokallaðan gröft eftir – eða leit að – rafmyntum á borð við Bitcoin. Ekki er vitað hvort búnaðurinn hefur verið fluttur úr landi, en ætli menn að nota hann hérlendis er ekki nóg að stinga honum í samband hvar sem er.

Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofan hefur aflað sér má ætla að orkunotkun slíks búnaðar sé um það bil eitt megavatt. Það jafngildir almennri orkunotkun 500 til 600 meðalheimila.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla fylgst vel með því hvort raforkunotkun hafi aukist óeðlilega mikið einhvers staðar frá því að málið kom upp, en það hefur engu skilað enn sem þykir benda til þess að búnaðurinn sé ekki í notkun.

Lögreglan beinir þeim tilmælum sem fólks sem kunni að búa yfir upplýsingum um málið að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum.