Lögregla rannsakar hvarf Estherar

04.01.2012 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan í Portland í Oregon hefur ákveðið að rannsaka hvarf Rögnu Estherar Sigurðardóttur Gavin fyrir sex áratugum. Fréttavefurinn Oregonlive greinir frá þessu og segir að lögreglukonunni Carol Thompson hafi verið falið að fara ofan í saumana á málinu.

Ragna Esther Sigurðardóttir giftist í stríðslok bandarískum hermanni Emerson Lawrence  eða Larry Gavin og fluttist með honum til Bandaríkjanna. Larry beitti eiginkonu sína miklu ofbeldi. Þau skildu og Esther hlaut forræði yfir börnum þeirra tveimur, en hafi ekki bolmagn til að annast þau. Þau voru síðan ættleidd.  Esther hvarf árið 1952 og er ekkert vitað um afdrif hennar. 

Eins og fréttastofa RÚV greindi frá á liðnu ári hafa ættingjar Estherar æ síðan reynt að komast að hvað varð um hana, en engin svör fengið. Vefurinn Oregonlive birti nýlega grein í fimm hlutum um líf Estherar og leitina að henni.  Dennis Baker, lögreglumaður á eftirlaunum, hafði þá skoðað málið en ekki fundið neinar vísbendingar um afdrif hennar, en nú hefur Carol Thompson tekið við verkefninu.

Oergonlive hefur eftir Thompson að eina færa leiðin  sé að fá erfðaefni úr ættingja Estherar og skrá það í gagnagrunn við Norður-Texas-háskólann, en þar er hægt að bera það saman við erfðaefni úr líkamsleifum fólks sem ekki hafa verið borin kennsl á.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi