Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögregla rak fólk í land

26.11.2017 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Unnarsson
Lögregla var kölluð til í dag þegar fjöldi ferðamanna var kominn út á ísinn á Jökulsárlóni og hafði stefnt sér í hættu. Tugir manna þrömmuðu um ísinn þar sem hann liggur alveg upp að fjörunni, spókuðu sig þar og mynduðu í bak og fyrir. Meðal þeirra sem mynduð voru á ísnum úti á lóninu voru brúðhjón í sínu fínasta pússi. Voru sumir komnir langt út á ísinn.

Ragnar Unnarsson, leiðsögumaður og ferðamálaráðgjafi, sá fólkið þegar hann kom að Jökulsárlóni í dag. Honum var ekki rótt og hafði hann því samband við starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ragnar segir að lögreglumenn hafi verið fljótir á vettvang. Þeir hafi verið komnir eftir um tíu til fimmtán mínútur.

Lögreglan stóð á bakkanum og kallaði til fólks um að það ætti að koma sér í land, segir Ragnar. Við það fór fólk að tínast í land.

Lögregla og björgunarsveitir hafa verið kallaðar út nokkrum sinnum síðustu ár vegna fólks sem hefur gengið út á ísinn á Jökulsárlóni. Í febrúar og apríl í fyrra mætti lögregla á staðinn til að kalla fólk af ísnum og á fast land, auk þess að gefa því tiltal. Björgunarsveitarfólk hefur líka verið kallað út til að tryggja að allir komist í land. Því til viðbótar hefur komið fyrir að björgunarsveitir hafi verið fengnar til að vakta Jökulsárlón svo fólk fari ekki út á ísinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Unnarsson