Lögregla kölluð til vegna fólks með heilabilun

11.02.2020 - 11:44
Mynd: RÚV / RÚV
Lögregla hefur verið kölluð á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að starfsfólk á vakt réð ekki við íbúa með heilabilun. Steinunn Þórðardóttir yfirlæknir á minnismóttöku Landspítalans segir að skortur á fagfólki hafi orðið til þess að veikum íbúum hjúkrunarheimila sé skilað aftur á Landspítalann.

Fólki með heilabilun skilað aftur

Tekið er á móti fólki með einkenni heilabilunar á minnismóttöku Landspítalans þar sem Steinunn er yfirlæknir. Þar eru heilabilunar- og minnissjúkdómar greindir og reynt að finna varanlegt pláss fyrir fólkið á hjúkrunarheimilum. 

Komið hefur fyrir að ekki hefur verið hægt að sinna fókinu á hjúkrunarheimilunum „og þurft að senda það til baka til okkar og þá í mjög mikla óvissu. Því þá hugsar maður hvert er framhaldið fyrir þetta fólk? Á það að búa á spítalanum eða hvert er hægt að vísa því?“

Lögregla hefur verið kölluð til á hjúkrunarheimilin. „Það er náttúrulega erfitt fyrir mig að tjá mig um einstök tilvik en ég veit til þess að lögregla hefur verið kölluð til bara vegna skorts á mönnun og vegna þess að öryggi þá einstaklingsins og jafnvel annarra íbúa heimilisins hefur verið ógnað.“  
 
Atvik af þessu tagi hafi átt sér stað á síðasta ári og árinu á undan.

„Og við sem störfum á Landakoti höfum á tilfinningunni að þetta sé að aukast. Að lögreglan sé kölluð til aðstoðar? Já og að heimilin hafi í rauninni ekki tök á því að sinna einstaklingum með því starfsfólki sem þar er.“

Röng viðbrögð gera illt verra

Margoft hefur verið talað um fráflæðisvanda Landspítalans og skort á hjúkrunarheimilum en núna hefur dæmið snúist við og það skapar vanda á Landspítalanum. 

„Þetta fólk, það fer ekki best um það á sjúkrahúsi og í rauninni eru útskriftarúrræði mjög óljós þegar búið er að útskrifa fólk af hjúkrunarheimili. Þannig að fólk dvelur hér mánuðum saman á spítalanum í kjölfar svona uppákomu og alveg óljóst hvort það komist nokkurn tímann héðan.“ 

Steinunn segir að fjármagna þurfi hjúkrunarheimilin þannig að þau geti sinnt íbúum með heilabilun. Mikilvægt sé að tryggja fólkinu rólegt og gott umhverfi. Röng viðbrögð starfsfólks gagnvart heilabiluðum einstaklingi geti aukið á vandann.

„Nú veit ég ekki hvernig það var í þessum einstöku tilfellum en maður þarf að kunna að umgangast einstaklinga sem eru í þessari stöðu. Það er mjög ógnvekjandi fyrir fólk með heilabilun þegar lögreglan er kölluð til og getur haft mjög langvarandi afleiðingar fyrir viðkomandi, bara þessi reynsla.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hlusta má á viðtalið við Ólaf Hauksson hér í spilaranum.

Sendur á bráðamóttöku vegna lungnabólgu

Mannaflaskortur á hjúkrunarheimilum birtist ekki bara í því að fólk með heilabilun sé útskrifað af hjúkrunarheimilum á Landspítalann heldur eru líka fjölmörg dæmi um að ekki sé fagþjónusta á heimilunum til að bregðast við ef fólk veikist.

Faðir Ólafs Haukssonar var nýlega sendur af hjúkrunarheimilinu þar sem hann býr á bráðamóttökuna vegna lungnabólgu. Hann versnaði af henni um nótt og þegar ekki var hægt að sinna honum á heimilinu var hann fluttur á bráðamóttökuna.  

Margfalt dýrara að fara á bráðamóttökuna

Faðir Ólafs er að verða níræður og hefur fengið lungnabólgu nokkrum sinnum undanfarin ár og fær yfirleitt sýklalyf við henni. Síðast veiktist hann í desember.

„Þetta var um nótt. Enginn læknir var kallaður til á hjúkrunarheimilinu til þess að gefa honum sýklayf heldur var hann sendur með sjúkrabíl á bráðamóttökuna. Þar fékk hann fína meðferð en þar lá hann inni í tvo sólarhringa á meðan verið var að ganga úr skugga um að lungnabólgan væri gengin niður. Hann var svo sendur aftur með sjúkrabíl á hjúkrunarheimilið.“

Hann hafi verið tekinn út af heimilinu og fluttur í frekar óvistlegar aðstæður eins og bráðadeildin er þegar allt er þar troðfullt. 
„Honum fannst hreinlega ömurlegt að vera þarna þó að hann væri auðvitað mjög ánægður með alla þjónustuna sem hann fékk og hann náði bata og fékk lyf.“
 
„Í mínum huga er það alveg ljóst að þetta er margfalt dýrara fyrir samfélagið að senda svona tilfelli inn á bráðadeild þar sem tekið er upp pláss í tvo sólarhringa og við svona frekar óvistlegar aðstæður á meðan væri hægt með skynsamlegri ráðstöfun fjármuna að afgreiða svona tilfelli inni á viðkomandi hjúkrunarheimilum.“ 

Mynd: RÚv / RÚV
Hlusta má á viðtalið við Helgu Hansdóttur yfirlækni á Grund og Mörk í spilaranum

Samið um minni læknisþjónustu

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratryggingar Íslands skrifuðu undir nýjan rammasamning í desember. 
Helga Hansdóttir er yfirlæknir á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund og Mörk hjúkrunarheimili. Hún segir að erfiðlega hafi gengið að manna læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum víða.  

„Nú eru öll hjúkrunarheimili mjög óánægð með samninginn við Sjúkratryggingar og fjármagn sem það fær til reksturs. Þetta er náttúrulega ein af afleiðingum þess að þá er samið um minni læknisþjónustu. Það er minna hægt að sinna fólkinu en það þarf að sinna því og þá er hætta á að fólk sé sent á sjúkrahús.“

Óhagkvæmt að draga úr viðveru lækna

„Þetta eru aldraðir einstaklingar, fjölveikir, oft með mjög flókna sjúkdóma og því þarf bara að sinna. Eina leiðin er að gera það annaðhvort á staðnum og gera það vel eða senda fólk á spítala. Ef dregið er úr viðveru lækna þá er augljóst að það verður bara meiri flutningur á spítala og það er náttúrulega augljóslega mjög óhagkvæmt fyrir þjóðfélagið í heild sinni og verra.“
 
Íbúar á hjúkrunarheimilum séu mun veikari nú en fyrir nokkrum árum. Þá var rekin líknardeild á Landakoti þar sem margir aldraðir með krabbamein á lokastigi áttu sína síðustu daga. Þessi líknarþjónusta hafi nú verið færð yfir á hjúkrunarheimilin. Dánartíðni t.d. á Grund hafi verið óskaplega mikil síðustu árin. 

Vandinn ekki ræddur í stjórnsýslunni

„Og þarna þarf fagmenntun bæði lækna og hjúkrunarfræðinga og annarra og tíma til þess að sinna þessu fólki almennilega. En það má segja, sem mér finnst svolítið dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu, þetta er hvergi rætt, það er aldrei samið um það, það er ekki hugað að því að það þurfi meiri mannskap eða peninga til að fylgja þessum verkefnum heldur alltaf gleðin að þarna er hægt að halda Landspítalanum í járngreipum og færa vandamálin yfir á hjúkrunarheimili.“

Landspítalinn situr uppi með verkefnin

Hvað viltu sjá gerast? „Ég mundi vilja sjá að hjúkrunarheimilin væru fjármögnuð á þann hátt sem Ríkisendurskoðun hefur t.d. talað um að mönnun bæði fagmanna, þá tala ég um bæði hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna, sé á þann hátt að það sé hægt að sinna þessu verkefni með gæðum og stolti. Með því að draga úr þjónustu á einum stað þá bara færist hún yfir á annað þjónustustig og Landspítalinn er alltaf lokastoðin hjá öllum. Þannig að það fara þá allir þangað og Landspítalinn situr upp með verkefni sem gæti verið sinnt annars staðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Áhyggjufull stjórn Alzheimersamtakanna

Stjórn Alzheimersamtakanna sendi frá sér ályktun í janúar þar sem hún lýsir yfir áhyggjum af alvarlegri stöðu sem komið hefur upp í nokkrum tilfellum á hjúkrunarheimilum vegna skorts á sértækum úrræðum fyrir einstaklinga með heilabilun. Þar segir að ástandið hafi leitt til þess að hjúkrunarheimili útskrifi fólk með erfið geðræn einkenni af völdum heilabilunar. 

Haldinn var fundur hjá embætti landlæknis vegna málsins og eftir það ákveðið að setja á fót samráðshóp heilbrigðisráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands og landlæknis.
Alzheimersamtökin telja að nauðsynlegt sé að auka verulega sérþekkingu starfsfólks hjúkrunarheimila á umönnun fólks með heilabilunarsjúkdóma.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV