Lögregla fellir niður Sólheimasandsmálið

01.09.2016 - 12:11
Indverska kvikmyndastjarnan Shah Rukh Khan á Douglas Dakota flugvélarflaki á Sólheimasandi.
 Mynd: RÚV
Spænskur ferðamaður sem krafinn var um greiðslu andvirði hundrað þúsund króna af landeiganda á Sólheimasandi fyrir að aka inn á lokað svæði, ætlar að leita til spænska sendiráðsins vegna málsins. Maðurinn ók bílaleigubíl inn á bannsvæði á Sólheimasandi. Landeigandinn læsti þá hliði að svæðinu með hengilás og neitaði að opna nema gegn greiðslu.

Maðurinn tilkynnti málið til lögreglu sem hefur nú látið það niður falla á þeim grundvelli að ekki hafi verið um refsiverða háttsemi að ræða. „Við rannsókn kom í ljós að þarna var ekki um refsiverða háttsemi að ræða. Því er ekkert aðhafst frekar af hálfu lögreglu," segir talsmaður lögreglunnar á Suðurlandi.

Kjartan Magnússon, framkvæmdastjóri bílaleigunnar sem maðurinn var í viðskiptum við, segist skilja að landeigendur séu þreyttir á utanvegaakstri ferðamanna. Hann segir að maðurinn hefði ekki átt að aka inn á svæðið, því það sé vel merkt að ekki megi að aka um svæðið. Hann segir framkomu landeigandans þó ekki í lagi. „Ég skil bóndann mjög vel en það á ekki að gera þetta svona," segir Kjartan.

Hann segir að þegar ferðamaðurinn kom að læstu hliðinu hafi hann ekki séð nokkurn mann og því haft samband við lögreglu sem benti honum á landeigandann. Eins og áður hefur komið fram neitaði landeigandinn að opna hliðið, sem læst var með hengilás, nema fá 800 evrur fyrir, jafnvirði rúmlega 100 þúsund króna. Gjaldið var innheimt í þjónustumiðstöð í næsta nágrenni og maðurinn fékk kvittun sem á stendur „snjósleðaferð". 

Kjartan sagði sögu mannsins á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar en færsla hans hefur fengið sterk viðbrögð. Sumum finnst rétt að krefja manninn um greiðslu þar sem hann virti ekki skilti um lokun landsins á meðan aðrir gagnrýna framkomu landeigandans og segja þetta sverta ímynd ferðaþjónustunnar. Kjartan telur að gjaldið fyrir að komast inn á landið sé óeðlilega hátt. „Vegurinn hlýtur að vera nógu góður fyrir formúlubíl miðað við þetta verð," segir hann.

Ranglega var sagt frá því að Kjartan Magnússon væri eigandi bílaleigunnar. Það er rangt, hann er framkvæmdastjóri hennar. Beðist er velvirðingar á þessu. Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi