Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Logn og þurrt og líkur á mengun frá flugeldum

27.12.2018 - 19:52
Mynd: Einar Svavarsson / hiticeland.com
Margir öndunarfærasjúklingar kvíða áramótunum, vegna þess hversu mikil mengun hlaust af flugeldum í fyrra. Þetta segir formaður Astma- og ofnæmisfélagsins. Útlit er fyrir logn og þurrt veður á höfuðborgarsvæðinu um áramótin og veðurfræðingur segir að því megi búast við töluverðri mengun frá flugeldum.

Sala flugelda hefst á morgun, en samkvæmt lögum má ekki hefja söluna fyrr. Þegar fréttastofu bar að garði á Flugeldasölu Landsbjargar í dag voru fulltrúar frá slökkviliði, lögreglu og Neytendastofu að ganga úr skugga um að allt væri eftir settum reglum áður en salan hefst. Hlutverk Neytendastofu er að tryggja að allar merkingar séu í lagi.

„Hér er mikilvægast að varan er CE vottuð eins og hún á að vera, það eru aldurstakmarkanir og aðvörunarleiðbeiningar. Og eins hvernig á að haga sér við að skjóta henni og fjarlægðartakmarkanir sem skipta mjög miklu máli,“ sagði Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, um leið og hann skoðaði eina skotkökuna í hillum Landsbjargar. Tryggvi segir að heilt yfir séu merkingar góðar í ár, en einhverjar athugasemdir hafi þó verið gerðar.

„Alltaf að skoða eitthvað nýtt“

En Landsbjörg selur ekki bara flugelda fyrir þessi áramót, heldur einnig svokallað Rótarskot, sem er nýjung.

„Og þá er það þannig að þú kaupir pakka hjá okkur og í honum er einn græðlingur sem þú reyndar færð ekki í hendur heldur gróðursetur Skógræktarfélag Íslands hann í skógi í Þorlákshöfn,“ segir Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri hjá Landsbjörg.

Og inni í þessu er líka skraut?

„Já þar er tré sem þú getur tekið í sundur og smellt á áramótaborðið og komið því á Facebook að þú hafir keypt eitt svona Rótarskot.“

Eruð þið með þessu að bregðast við gagnrýni sem hefur komið fram vegna svifryks og mengunar af völdum flugelda?

„Nei í sjálfu sér ekki. Við erum alltaf að skoða eitthvað nýtt og björgunarsveitarmenn eru mjög miklir náttúruunnendur, þannig að þetta passaði bara beint inn í þetta hjá okkur.“

Sumir halda sig innandyra

Mikil mengun varð af völdum flugelda á höfuðborgarsvæðinu fyrir ári, enda var bæði logn og þurrt. Fyrir þessi áramót ákvað Umhverfisstofnun að senda félögum í Astma- og ofnæmisfélaginu sérstakt bréf, þar sem minnt er á vefinn loftgæði.is þar sem hægt er að fylgjast með loftgæðum í rauntíma. 

„Þeir sem eru í verstri stöðu halda sig bara innandyra. En það er auðvitað hægt að nota grímur, þeir sem eru að taka lyf þurfa að halda áfram að passa upp á þau, að taka þau í réttum skömmtum og nóg af þeim, og síðan bara að forðast staði sem eru hvað verstir,“ segir Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands

Kvíðir fólk hreinlega áramótunum?

„Já ég er viss um að margir gera það, sérstaklega í ljósi reynslunnar af síðustu áramótum þar sem mörgum leið bara mjög illa.“

Og þið vonist væntanlega eftir því að það verði hvasst og blautt um áramótin?

„Já er það ekki best fyrir þá sem eru með öndunarfærasjúkdóma að aðstæður séu þannig?,“ segir Fríða.

Það er hins vegar ólíklegt að öndunarfærasjúklingum verði að ósk sinni. 

„Það er ekki að sjá að það verði hvasst og blautt,“ segir Theodór Freyr Hervarsson veðurfræðingur. „Það er útlit fyrir að það verði til þess að gera hægur vindur og kalt, og úrkoma lítil sem engin. Það snjóar kannski eitthvað á norðausturhorninu en því miður fyrir öndunarfærasjúklinga er ekki útlit fyrir að þeir fái þá ósk uppfyllta.“

Má búast við mikilli skoteldamengun?

„Ég myndi áætla það miðað við að það verði hægur vindur og kalt, þá liggur þetta dálítið yfir okkur,“ segir Theodór.