Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögmaður lögreglumannsins fær ekki afhent gögn

06.01.2016 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður fíkniefnalögreglumannsins sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um brot í starfi, vill ekki upplýsa um hvað skjólstæðingi sínum er gefið að sök, í samtali við fréttastofu.

Lögreglumaðurinn var handtekinn 29. desember síðastliðinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir, en það rennur út á föstudaginn. Maðurinn hefur verið í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Fréttatíminn greindi frá því í gær, að til rannsóknar séu óeðlileg samskipti lögreglumannsins við brotamenn.

Lögmaður hans segir að skjólstæðingur sinn hafi verið yfirheyrður eftir handtökuna. Skýrslutakan hafi ekki tengst meintum brotum hans með beinum hætti. Hann segir skjólstæðing sinn ekki enn hafa fengið tækifæri til að svara þeim sökum sem á hann eru bornar, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um slíkt og þá hafi lögregla sömuleiðis synjað honum um öll gögn sem varða hin meintu brot.

Hann hefur sent Héraðsdómi Reykjavíkur erindi þar sem hann krefst þess að lögregla verði skikkuð til að afhenda öll gögn málsins.

Lögregla og ríkissaksóknari verjast allra fregna

Sem fyrr verst lögregla höfuðborgarsvæðisins, sem og ríkissaksóknari sem fer með rannsókn málsins, allra fregna af málinu. Þá hefur Ríkissaksóknari til að mynda ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum fréttastofu um málið.Samkvæmt heimildum fréttastofu eru ekki fleiri lögreglumenn bendlaðir við málið.

 

Lögreglumaðurinn er á fimmtugsaldri og hefur getið sér gott orð innan lögreglunnar, þar sem hann hefur starfað lengi, meðal annars við rannsókn umfangsmikilla fíkniefnamála. Vinnufélagar hans heyrðu fyrst af málinu í fjölmiðlum í gær en maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald um áramótin. Hann er í einangrun sem bendir til þess að málið sé litið alvarlegum augum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki viljað tjá sig um málið við fréttastofu. Ekki hefur fengist uppgefið hjá ríkissaksóknara hver stýrir rannsókninni né um hvað hún snýst eða hvort fleiri séu viðriðnir málið.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV