Logi: Tími útsala hjá nýju flokkunum

10.01.2017 - 19:01
Þingsetning 2016
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er frekar rýr og almennt orðaður segja Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. Logi segir að þeim efnameiri verði áfram hyglað á kostnað þorra almennings og Svandís segir það vekja athygli að ekkert sé talað um húsnæðismál.

 

„Hann er mjög almennur frekar rýr. Það eru þó gefin frekar fögur fyrirheit þar en ég óttast að það verði erfitt að efna þau einfaldlega vegna þess að þarna er verið að byggja á skatta- og auðlindarstefnu Sjálfstæðisflokkins, sem að mun áfram hygla þeim efnameiri á kostnað þorra almennings,“ segir Logi. „Það verða einfaldlega ekki leiðir þarna sýnist mér til að afla nógu mikilla tekna til að standa undir því sem lofað er. Er eitthvað sem kom þér á óvart þarna? Já, það kom mér á óvart hversu mikið Björt framtíð og Viðreisn gefa eftir í þeim lykilmálum sem þau tefldu fram fyrir kosningar, það er auðvitað tími útsalanna og þau virðast greinilega hafa hellt sér í þann slag.“

Svandís segir að stjórnarsáttmálinn sé í raun mjög almennt orðaður. „Það eru þarna textar sem nánast hver sem er hefði getað sagt eða skrifað þannig það er ekki mikill sóknarhugur eða drifkraftur í þessum stjórnarsáttmála við fyrstu sýn. Það sem vekur líka athygli er það sem er ekki þarna, það er til að mynda ekkert talað um húsnæðismál. Sem hefur verið mikið ákall um að verði rætt.“