Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Logi: Dagur verði áfram borgarstjóri

Mynd: Samsett mynd. / RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það væri langeðlilegast ef Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, yrði áfram borgarstjóri ef viðræðurnar í borginni skila nýjum meirihluta. Viðræður Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata um myndun nýs meirihluta í höfuðborginni halda áfram í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í dag.

Logi var gestur Óðins Jónssonar og Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Óðinn spurði Loga meðal annars hvort Dagur verði áfram borgarstjóri.

„Já mér þykir það nú líklegt. Þrátt fyrir allt, þá vinnur flokkurinn í rauninni nokkuð góða kosningu,“ sagði Logi.

En hann tapaði fylgi?

„Þetta var tap um nokkur prósent. En Samfylkingin er búin að vera leiðandi þarna í átta ár þannig að við öðru var ekki að búast. Svo má ekki gleyma því að í raun féll þessi meirihluti daginn sem til kosninga var boðað vegna þess að Björt framtíð hafði 15% atkvæða. En inn komu nýir flokkar sem stóðu sig margir vel. Og hin raunverulega staða er auðvitað bara sú að eftir kosningarnar var ennþá meirihluti fyrir þeim meginhugmyndum og stefnu sem síðustu tveir meirihlutar höfðu unnið eftir. Þannig að mér finnst eðlilegt að þau klári þetta núna, geri góðan samning. Það er gott að fá inn nýtt fólk. Það skapar bara kraft og dýnamík. En Samfylkingin er eftir sem áður langstærsta aflið þarna inni og mér þætti langeðlilegast að Dagur leiddi þetta áfram,“ sagði Logi. 

Í viðtalinu ræddi Logi meðal annars um stöðu Samfylkingarinnar, þingstörfin og umdeilt frumvarp um veiðigjöld. Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.