Lögga í Berlín gerðist bakari í Hveragerði

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Lögga í Berlín gerðist bakari í Hveragerði

11.11.2019 - 14:30

Höfundar

Í bílskúr við heimahús í Hveragerði er allt á fullu þegar Landinn lítur við og unnið eftir stífu skipulagi. Þarna starfrækir Dörthe Zenker bakaríið Litlu brauðstofuna með hjálp frá manninum sínum Jens. Þau eiga sér áhugaverða sögu og þrátt fyrir að vera bæði þýsk kynntust þau á Íslandi fyrir hreina tilviljun.

Dörthe bakar um tíu tegundir af súrdegisbrauði, alls kyns smábrauð, þýska jólaköku, konfekt, saltkringlur og fleira og er dugleg að prófa eitthvað nýtt. Ofninn pípir mjög reglulega og lætur vita að næsti skammtur sé tilbúinn. Og það er nóg að gera í saltkringlunum þennan daginn því það vera að berast pöntun upp á hundrað stykki. 

Upphafið

En allt byrjaði þetta þannig að Dörthe sem starfaði sem lögreglukona í Þýskalandi meiddist á hné í fótbolta. Hún hafði ætlað sér í gönguferð á Grænlandi en læknirinn tók fyrir það. Hún sá hins vegar að sama fyrirtæki bauð upp á auðveldari göngu á Íslandi og skráði sig til leiks. 

„Ég hugsaði þetta er nálægt Grænlandi og kannski það sama. Svo lenti ég í Keflavík og fannst þetta ekki fallegt, það var rigning og svart hraun. Ég er í vitlausu landi hugsaði ég. Fyrstu dagana vorum við í Reykjavík en á þriðja degi fórum við í Vík og þá fannst mér ég vera á alveg réttum stað,“ segir Dörthe sem heillaðist af suðurlandinu. 

Bílstjórinn í ferðinni reyndist tilvonandi eiginmaður hennar. Hún fór aftur heim eftir tveggja vikna veru á Íslandi en kom aftur nánast á hverju sumri. Þau bílstjórinn kynntust betur úti, eignuðust börn, giftu sig og fóru í brúðkaupsferð til Íslands. Þá fengu þau þá hugmynd að heimsækja landið að vetri til sem þau gerðu 2007 og hér hafa þau verið síðan. 

Fundu leið til að vera áfram

Kreppan setti strik í reikninginn hjá hjónunum og þá var þriðja barnið á leiðinni. Þau fóru bæði í nám í Menntaskólanum í Kópavogi, hún í bakaranám og hann í leiðsögunám. Upp úr því og samhliða löngun í þýskt brauð sem þau söknuðu kviknaði hugmyndin að bakaríinu. 

„Við eigum ekki ömmu og afa nálægt svo það eru bara við tvö og ef eitthvað kemur upp er fínt að vera nálægt. Þess vegna var best að gera þetta bara hérna í bílskúrnum.“