Bergur ólst upp í Hlíðahverfinu, gekk í Hlíðaskóla og síðar í Menntaskólann við Hamrahlíð. Hann segist sjálfur hafa verið ágætis námsmaður og að honum hafi þótt ágætlega gaman í skóla.
Í MH tók hann virkan þátt í félagslífinu og var á tímabili forseti nemendafélagsins. „Ég var mættur hálf átta á morgnana að gera eitthvað og kom svo heim hálf tólf um kvöldið, maður var alltaf eitthvað að vesenast með einhverjum,“ segir Bergur um þennan tíma, en þrátt fyrir að hafa varið nánast öllum stundum í skólanum eyddi hann þeim ekki öllum í tímum.
„Ég fann bréf frá skólanum um daginn sem að ég hef fengið sent heim til mín af því að ég var ekki búinn að vera að mæta,“ bætir hann við og vísar í bréf þar sem að skólastjórnendur vöruðu við brottrekstri úr skólanum. Bergur útskrifaðist samt sem áður á þremur og hálfu ári og tók sér svo hálfs árs pásu.
„Ég held að manni líði best þegar maður er að hugsa um ekkert nema núið. Ég var ekkert að pæla í framtíðinni þegar ég var í MH.“
Eftir stutta pásu lá leiðin svo í lögfræði við Háskóla Íslands, hann var í eitt ár sem skiptinemi í París, útskrifaðist með lögfræðigráðu 25 ára og tók lögmannsréttindi stuttu síðar. Á þessum tíma var hljómsveitin hans, Sprengjuhöllin farin að verða vinsæl.